Algjörlega búnir að tapa sér

„Það er greinilega verið að taka fastar á ýmsum atriðum í leiknum. Meðal annars þá er það hvernig varnarmenn eiga við línumenn andstæðinganna. Stundum þá eru dómararnir aðeins of harðir miðað við hvernig „línan“ er frá dómaranefndinni,“ segir Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik um þá gagnrýni sem hefur komið frá nokkrum þjálfurum liða á heimsmeistaramótinu á dómgæsluna á heimsmeistaramótinu í Katar.

„Einnig er verið að taka á hrindingum. Það lítur út fyrir að dómararnir eigi að vera harðari en stundum áður á mótum,“ segir Aron.

„Hin nýjan lína dómaranna er stórt atriði í leikjum og hefur talsverð áhrif á þá með þeim afleiðingum að maður veit ekki hvers er vænta í hverjum leik,“ segir Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana.

„Það er erfitt að spila vörn þegar „línan“ er svona eins og hún er. Ég tel að dómarar hafi farið framúr sér við túlkun á reglum sem eru til staðar. Bannað er að toga í treyjur og og ýta á eftir mönnum, en því miður virðist sem svo að ekki sé verið að taka á þessum málum. Það er alltof mikið um að menn séu með leikaraskap til þess eins að fá dómara til þess að dæma eftir reglum sem eru ekki til. Menn eru algjörlega búnir að tapa sér í þessum efnum, það er mín skoðun,“ segir Guðmundur Þórður.

„Þegar áherslum er breytt þá vill það oft taka tvo til þrjá leiki hjá dómurum að finna taktinn en eftir það þá jafnast leikurinn oft út,“ segir Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þjóðverja. „Það er ljóst að mikið hefur verið um brottrekstra í mörgum leikjum mótsins til þessa sem veldur því að takturinn í leikjunum breytist,“ segir Dagur ennfremur og bætir við. „Ég er kannski ekki besti maður til þess ræða yfirhöfuð um dómgæslu.“

Nánar er rætt við Aron, Dag og Guðmund Þórð á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert