Frábær úrslit gegn Frökkum

Ísland og Frakkland gerðu jafntefli 26:26 í C-riðli heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Doha, höfuðborg Katar, klukkan 18.00. Ísland var yfir 14:12 að loknum fyrri hálfleik. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Allt annað var að sjá til íslenska liðsins í dag en í fyrsta leiknum gegn Svíum á dögunum. Menn voru áræðnir í sókninni og refsuðu Frökkunum þegar þeir sváfu á verðinum. Hraðinn var meiri í sókninni, mun meiri en gegn Svíum, en aginn engu að síður til staðar.  Þá var 6-0 vörnin virkilega góð og þar gekk flest upp fyrir utan það að línumaðurinn öflugi Cédric Sorhaindo fékk úr miklu að moða og skoraði 5 mörk. Björgvin varði afar vel í fyrri hálfleik en varði ekki mörg skot í seinni en tók þó vítakast í upphafi síðari hálfleiks. 

Augljóst var að mun meiri neisti var í íslenska liðinu í dag og spurning hvort síðari hálfleikurinn gegn Alsír hafi virkjað þá stemningu sem liðið þarf á að halda. Aron Pálmarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson voru markahæstir með 5 mörk hvor en Aron var tekinn úr umferð á köflum. 

Besti handboltamaður í heimi, Nikola Karabatic, fékk sína þriðju brottvísun á 50. mínútu. Síðasta brottvísun var fyrir meintan leikaraskap þegar Sverre fór í hann. Róbert Gunnarsson skoraði síðasta mark leiksins á glæsilegan hátt þegar rúm mínúta var eftir. Björgvin varði í kjölfarið en Íslandi tókst ekki að skora úr síðustu sókn leiksins. 

Svíar eru þá með 6 stig, Frakkar 5, Egyptar 4, Íslendingar 3, Tékkar og Alsírbúar ekkert, þegar þremur umferðum er lokið af fimm. Fjögur efstu liðin fara áfram og nú liggur fyrir að Íslandi nætir jafntefli gegn Tékkum á fimmtudaginn til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum.

Leikirnir gegn Tékkum og Egyptum verða afar mikilvægir þar sem þær þjóðir eru einnig að berjast um að komast áfram í 16-liða úrslitin. Jákvæðu fréttirnar eru þær að mikill stígandi er í leik íslenska liðsins. 

Ísland 26:26 Frakkland opna loka
60. mín. Alexander Petersson (Ísland) fékk 2 mínútur Fyrir stimpingar. Leikhléin eru búin hjá Íslendingum. Okkar menn með boltann manni færri.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert