Einn besti leikurinn

Guðmundur Þ. Guðmundsson og Jesper Nöddesbo ræða við fréttamenn eftir …
Guðmundur Þ. Guðmundsson og Jesper Nöddesbo ræða við fréttamenn eftir leikinn við Þjóðverja. EPA

Guðmundur Þ.  Guðmundsson landsliðsþjálfari Dana var að mörgu leyti ánægður með leikinn gegn Þjóðverjum í gærkvöld en liðin skildu þá jöfn, 30:30, á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Katar. Hann hrósaði báðum liðum en sendi þó dómurunum tóninn á fréttamannafundi danska liðsins í Doha í morgun.

„René Toft varð fyrir harðskeyttum árásum mótherjanna en var sjálfur dæmdur úr leik. Ég hrósaði honum fyrir hve vel hann hélt ró sinni. Þetta var mjög erfiður leikur fyrir hann. Andstæðingarnir hlupu ítrekað á hann og rifu í treyjuna hans. Og hvað fékk hann? Ekkert. Rekinn útaf í tvær mínútur. Hann fékk mjög ósanngjarna meðhöndlun," sagði Guðmundur.

Að öðru leyti fór hann fögrum orðum um leikinn. „Þetta var mjög harður leikur en mjög góður af hálfu beggja liða - einn besti leikurinn sem við höfum séð á HM. Menn léku mjög hratt og af ákefð. Við höfðum góða stjórn á okkar sóknarleik, enda þótt við hefðum þurft að glíma  við fjórar mismunandi varnaruppstillingar Þjóðverja. Ég er ánægður með það. Liðin gerðu fá mistök og það voru mörg marktækifæri.

Það er í gangi stór misskilningur um okkar varnarleik, að hann sé mjög framsækinn. Það er hann ekki,  við erum með mjög þétta  vörn. Stundum kannski of þétta. Ég er ánægður með að við lékum þann varnarleik sem við lögðum upp með," sagði  Guðmundur um viðureignina við Dag Sigurðsson og hans menn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert