„Ég er í sjokki yfir þessum leik,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, eftir stórtap fyrir Tékkum í riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í íþróttahöllinni í Al-Sadd í kvöld, lokatölur, 36:25, fyrir Tékka.
„Við vorum alveg hrikalegur þungir og ótrúlegt að ekki er hægt að setja stopparanna á. Í byrjun brást okkur bogalistinn í góðum færum og skiluðum okkur ekki til baka í vörnina. Þá keyrðu þeir yfir okkur,“ sagði Aron.
Spurður hvort eitthvað í undirbúningi leiksins gæti skýrt þennan slaka leik sagðist Aron hreinlega verða að fara yfir það mál. „Ég taldi okkur hafa búið okkur vel undir þennan leiks sem við stilltum upp sem leik þar sem við gætum tryggt okkur sæti í 16-liða úrslitum. Hvort sem það er þyngsli eða þreyta þá var lítill kraftur í liðinu þegar á hólminn var komið.
Þetta er ekki sama liðið og lék við Frakka, hreint ótrúlegt,“ segir Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari en nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði.