Niðurlæging, svartnætti voru tvö fyrstu orðin sem komu upp í hugann þegar flautað var til leiksloka í viðureign Íslendinga og Tékka í íþróttahöllinni í Al-Sadd í Doha í Katar í gærkvöldi.
Gjaldþrot var fyrsta orðið sem kom fram á varir fyrirliðans, Guðjóns Vals Sigurðssonar, þegar hann hann hitti blaðamann Morgunblaðsins í leikslok eftir 11 marka skell, 36:25, fyrir Tékkum sem voru komnir með bakið upp að veggum í baráttunni um sæti í 16-liða úrslitum. Íslenska landsliðinu, sem virtust allir vegir færir eftir framúrskarandi leik gegn Frökkum á þriðjudagskvöldið, féll bókstaflega allur ketill í eld strax á fyrstu mínútu. Eftir það tók við óskipulagt undanhald undan eldinum í svartnættinu í Doha.
Nú tekur við hreinn úrslitaleikur fyrir íslenska landsliðið á morgun gegn Egyptum sem leikið hafa afar vel í keppninni og hafa auk þess stuðning nokkur þúsund manna á hverjum leik. Egyptar eru þegar öruggir áfram en miðað við nokkuð jafngóða leiki í keppninni til þessa er vandséð að þeir fari út af sporinu. Íslenska landsliðið verður að vinna leikinn til þess að komast í 16-liða úrslit þar sem Tékkar eiga fyrir höndum leik við Alsírbúa sem þeir eiga næsta örugglega að vinna og komast upp fyrir íslenska landsliðið tapi það eða geri jafntefli við lið Egypta.
Lesa má grein Ívars í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag þar sem ítarlega er fjallað um HM í handbolta