Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Þjóðverja í handknattleik fær mikið hrós í netútgáfu Spiegel í dag þar sem fjallað er um þýska landsliðið og hversvegna það sé skyndilega orðið eins sterkt og frammistaða þess á heimsmeistaramótinu í Katar ber vitni um.
Ljóst er að Þjóðverjar vinna hinn sterka D-riðil mótsins og mæta fyrir vikið fjórða liðinu í C-riðlinum, sem verður Tékkland, Egyptaland eða mögulega Ísland.
Greinarhöfundurinn, Birger Hamann, segir að menn megi ekki gleyma því að þýska liðið hafi alls ekki unnið sér keppnisrétt á mótinu í Katar, heldur hafi það fengið sætið þar á frekar umdeildan hátt. Liðið hafi í raun verið í frjálsu falli allt síðasta ár. Nú hafi liðið, undir stjórn Dags, sigrað bæði Pólland og Rússland og gert jafntefli við Danmörku í leik sem það hefði átt að vinna - og það væri ekki bara skoðun íslenska þjálfarans.
Hamann segir að fimm lykilþættir séu á bakvið þennan árangur Þjóðverja.
Í fyrsta lagi sé það þjálfarinn. Dagur Sigurðsson hafi sýnt í Danaleiknum hversvegna hann sé þjálfari í hæsta gæðaflokki. Hann hafi komið á óvart með 4:2 vörn sem landi hans og fyrrverandi lærifaðir, Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari Dana, hafi ekki fundið rétta svarið við. Dagur hafi síðan breytt yfir í bæði 5:1 og 6:0 varnarafbrigði. Sem sagt, hann hafi alltaf haft réttar lausnir við því sem gerðist á vellinum á reiðum höndum.
Í öðru lagi sé það sjálfstraustið. Það geisli einmitt af Degi Sigurðssyni og líkamstjáning hans á bekknum sé allt önnur en hjá forvera hans, Martin Heuberger. Það hafi smitast yfir á leikmennina. Dagur sé með nánast sama leikmannahóp og Heuberger en leikmennirnir bregðist við á allt annan hátt undir stjórn Íslendingsins. Þeir hafi meira sjálfstraust, viti hvað þeir eigi að gera og viti að þeir geti það.
Í þriðja lagi séu það klókindin. Það hafi legið fyrir að Danir væru sérstaklega hættulegir í hraðaupphlaupum og þar með hafi þýska sóknin miðast við að tapa boltanum sem sjaldnast í hendur Dana. Liðinu hafi m.a. lánast að halda boltanum, manni færri, síðustu 33 sekúndur leilksins. Þar með hafi það haldið jafnteflinu sem hafi verið ákaflega mikilvægt miðað við stöðuna í riðlinum.
Í fjórða lagi sé markvarslan. Dagur hafi skellt Silvio Heinevetter í markið þegar Carsten Lichtlein hefði ekki náð sér á strik. Lichtlein hafi átt góða leiki gegn Pólverjum og Rússum og því byrjað leikinn gegn Dönum. Heinevetter hafi haldið þýska liðinu inni í leiknum í seinni hálfleik og hann sé núna loksins, 34 ára gamall, farinn að ráða úrslitum í landsleikjum.
Í fimmta lagi sé það svo sóknarleikurinn. Eftir að Dagur tók við séu það ekki bara Uwe Gensheimer og Patrick Groetzki sem sýni að þeir séu leikmenn í hæsta gæðaflokki. Þjálfaranum hafi tekist að auka breiddina í sóknarleiknum, mun fleiri séu í stórum hlutverkum og þar með geti andstæðingurinn ekki lengur einbeitt sér að því að stöðva einn eða tvo aðalmarkaskorara þýska liðsins.
Hamann segir að lokum að nú sé Dagur í þann veginn að tryggja þýska liðinu sigur í riðlinum, og þá gæti það mögulega legið fyrir að hann eigi fyrir höndum mjög sérstakan leik - gegn Íslandi.