Egyptar, andstæðingar Íslendinga í dag, eru fremsta handknattleiksþjóð Afríku þegar horft er til sögunnar, enda þótt þeir séu ekki ríkjandi Afríkumeistarar í dag.
Egypska liðið mátti sætta sig við þriðja sætið á Afríkumótinu í Alsír í fyrra. Þar vann Alsír sigur á Túnis, 25:21, í úrslitaleik og Egyptar fengu bronsið með því að sigra Angóla, 31:24. Áður lögðu þeir Marokkó 24:15 í átta liða úrslitum. Í riðlakeppninni höfðu þeir sigrað Kamerún, Senegal, Gabon og Líbíu, alla leikina með 9 til 12 marka mun, en töpuðu fyrir Túnis.
Egyptar hafa fimm sinnum orðið Afríkumeistarar frá því þeir tóku fyrst þátt árið 1979 en þeir hafa sex sinnum mátt sætta sig við silfrið og sex sinnum fengið bronsverðlaun - sem hefur nú orðið hlutskipti þeirra tvisvar í röð á mótinu. Þá hafa þeir unnið handknattleikskeppni Arabaleikanna í öll sjö skiptin sem þeir hafa farið fram frá árinu 1992 og handknattleikskeppni Afríkuleikanna í sex skipti af níu, fyrst árið 1965.
Egyptar eiga langa sögu á heimsmeistaramóti. Þeir voru meðal andstæðinga Íslendinga á HM í Tékkóslóvakíu árið 1964 en Ísland vann þar öruggan sigur, 16:8.
Þeir hafa síðan verið með í lokakeppni HM samfleytt frá 1993. Besta árangrinum náðu þeir í Frakklandi árið 2001 þegar þeir léku um bronsverðlaunin en töpuðu fyrir Júgóslövum. Egyptar unnu alla leiki sína í riðlakeppninni það ár og lögðu m.a. Íslendinga, 24:22.
Egypska liðið varð í 6. sæti á HM á Íslandi 1995 og aftur í Japan 1997, og þá endaði það í 7. sæti á sínum heimavelli á HM árið 1999. Þá höfnuðu Egyptar í 6. sæti í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Atlanta 1996 og í 7. sæti í Sydney árið 2000.
Þetta öfluga egypska lið byggði á leikmönnum sem urðu heimsmeistarar ungmenna árið 1993, þar sem Ísland hafnaði einmitt í þriðja sæti, og varð þá fyrsta lið utan Evrópu til að vinna slíkan titil í handknattleiksíþróttinni.
Egyptum hefur hinsvegar ekki tekist að komast lengra en í 16-liða úrslit frá árinu 2001 en nú virðast þeir komnir með sitt besta lið í rúman áratug og eru til alls vísir í þessari keppni í Katar.
Í leiknum í dag er rétt að benda fólki á að fylgjast með örvhentu skyttunni Ahmed Elahmar. Hann er af mörgum talinn besti leikmaður í sögu egypsks handbolta, jafnvel betri en Hussein Zaky sem var þeirra lykilmaður lengi og lék m.a. með Ciudad Real. Elahmar er þrítugur og spilar með El Jaish í Katar og er því á heimavelli í dag.