Ég sá skömmustusvipinn

Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis, var afar óhress með dómgæsluna í …
Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis, var afar óhress með dómgæsluna í leiknum við Katar í kvöld í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik. EPA

„Þetta er bara leiðinlegt fyrir handboltann,“ sagði Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis, spurður um dómgæsluna í leik liðs hans við heimamenn í Katar í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í kvöld. Katar vann með tveggja marka mun, 29:27, og vann sér sæti í 8-liða úrslitum mótsins.

Patrekur og félagar eru hinsvegar úr leik eftir hetjulega baráttu en mjög hallaði á þá í dómgæslunni í leiknum og til þess vitnar Patrekur með upphafsorðum sínum.

„Ég sá skömmustusvipinn á einum besta þjálfara heims, Rivera þjálfara Katar, í leikslok. Hann þorði varla að horfa í augun á mér þegar við tókumst í hendur í leikslok. Leikmenn sögðu bara sorrí við mig í leikslok. Þetta er hreinlega fáránlegt. En ég valdi mér þetta starf og vissi hvernig starfsumhverfið er í þessum bransa,“ sagði Patrekur ennfremur.

„Ég var ánægðastur með sjálfan mig að hafa setið á strák mínum þegar mest gekk á enda var ég svo að segja á bekknum hjá sálfræðingnum; Jóhann Ingi Gunnarsson fylgdist með mér í sjónvarpinu. Mér fannst ég hafa stjórn á mér og hafa áhrif á þau atriði sem ég gat haft áhrif á. En vissulega getur maður ekki leynt vonbrigðum sínum með að við erum reknir út af sjö sinnum en Katarmenn þrisvar, tíu sinnum er dæmdur ruðningur á okkur en einu sinni á Katarliðið,“ segir Patrekur um nokkur dæmi úr leiknum í kvöld.

„Ég er stoltur af liðinu mínu í þessum leik og keppninni í heild. Þar af leiðir að ég ætla ekki að svekkja mig á dómgæslunni nema næsta klukkutímann. Svo fer maður að horfa fram á veginn á nýjan leik.

Við áttum skilið að fara áfram í átta liða úrslit heimsmeistarakeppninnar, út frá handboltalegu sjónarmiði. Við getum verið stoltir af okkar framgöngu í mótinu en það gefur okkur ekki áframhaldandi keppnisrétt.

Næst er að pakka niður í töskur og halda heim til Íslands. Framundan er æfing hjá mér með Haukana og leikur í Vestmanneyjum 5. febrúar. Ég hlakka til,“ sagði Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari og einnig þjálfari bikarmeistara Hauka í handknattleik karla, í samtali við mbl.is í Lusail-íþróttahöllinni í Doha í Katar í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert