Ísland er úr leik á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Katar eftir tap gegn Dönum, lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar, í sextán liða úrslitum mótsins í kvöld. Það er skemmst frá því að segja að Danir höfðu yfirhöndina frá fyrstu mínútu, voru yfir allan leikinn og uppskáru sanngjarnan fimm marka sigur, 30:25.
Líkt og í fyrri leikjum sínum á mótinu byrjaði íslenska liðið afleitlega. Danir komust snemma í 5:0 og Niklas Landin varði allt sem á danska markið kom. Fyrsta mark Íslands skoraði Alexander Petersson eftir sjö mínútur og eftir tíu mínútna leik höfðu einungis tvö íslensk mörk litið dagsins ljós, þar af annað úr víti.
Danir léku hins vegar við hvurn sinn fingur og náðu mest sjö marka forystu í fyrri hálfleik, 9:2 og 10:3, áður en tvö íslensk mörk í röð minnkuðu muninn niður í fimm mörk. Danir héldu því forskoti það sem eftir lifði fyrri hálfleiks auk þess sem þeir skoruðu síðasta markið áður en flautað var til hálfleiks og munaði þá sex mörkum á liðunum. Staðan 16:10 fyrir Dani þegar gengið var til búningsklefa.
Strax í fyrstu sókn eftir hlé var dæmd leiktöf á íslenska liðið sem gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi. Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson fór svo illa með tvö dauðafæri fljótlega í kjölfarið og svo virtist sem Landin væri að taka menn á taugum í marki Dana.
Danir náðu snemma átta marka forskoti í síðari hálfleik og vonleysið virtist mikið í íslenska liðinu enda þurfti mikið að gerast svo hægt væri að brúa bilið. Ísland náði að minnka muninn í sex mörk um miðbik hálfleiksins, en svo kom bakslag og Danir gengu á lagið.
Lærisveinar Guðmundar bættu hægt og bítandi við forskot sitt og þegar fimm mínútur voru eftir munaði níu mörkum á liðunum. Íslenska liðið minnkaði muninn undir lokin en úrslitin voru fyrir löngu ráðin, lokatölur 30:25. Ísland er því úr leik á HM í Katar en Guðmundur Guðmundsson er kominn í átta liða úrslit líkt og Dagur Sigurðsson með Þjóðverja. Danir mæta heimsmeisturum Spánverja í átta liða úrslitum.
Björgvin Páll Gústavsson var besti maður Íslands í leiknum, en hann varði sautján skot í markinu. Alexander Petersson var markahæstur íslenska liðsins með sjö mörk en hjá Dönum var Rasmus Lauge Schmidt atkvæðamestur með sex mörk.
Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is og þá verður leikurinn gerður upp í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl koma inn á vefinn síðar í kvöld.