Eftir þátttöku íslenska landsliðsins í handknattleik á heimsmeistaramótinu í Doha í Katar er ljóst að það stendur fremstu landsliðum heims nokkuð að baki.
Landsliðið hefur á síðustu árum dregist aftur úr frá þeim tíma sem það var hvað best. Breiddin í leikmannahópnum er lítil og burðarásar eldast eins og aðrir ár frá ári. Endurnýjun hefur ekki verið næg og kemur það helst til að þeir sem yngri eru og helst er horft til hafa verið einstaklega óheppnir með meiðsli. Fyrir vikið hefur samkeppni innan landsliðsins ekki verið nægilega virk.
Íslenska landsliðið getur enn hitt á ágæta leiki eins og gegn Frökkum í síðustu viku og Dönum í undirbúningi heimsmeistaramótsins. Þeim stundum fer hinsvegar fækkandi og svo gæti farið að á næstu árum verði Íslendingar, eftir að hafa verið góðu vanir á síðasta rúmum áratug, að venjast þeirri tilhugsun að landsliðið blandi sér ekki alvarlega í keppni þeirra allra bestu og jafnvel verði ekki þátttakandi á stórmótum. Vonandi gengur spá mín þó ekki eftir.
Íslenska landsliðið lék sex leiki á heimsmeistaramótinu að þessu sinni. Það vann landslið Alsír og Egypta, gerði jafntefli við Frakka en tapaði fyrir Svíum, Tékkum og Dönum. Af liðum þessara þjóða eiga Frakkar og Danir sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins.
Eins og áður hefur verið bent á þá hefur íslenska landsliðið ekki náð sér á flug eftir Evrópumeistaramótið í Danmörku í fyrra. Þar má segja að flest hafi gengið upp og niðurstaðan var fimmta sæti með lið sem í vantaði m.a. Alexander Petersson og var með Aron Pálmarsson og Arnór Atlason meidda hluta mótsins. Árangurinn var sigur fyrir Aron Kristjánsson landsliðsþjálfara sem tókst að spila vel úr sínu og ná hámarksárangri, að margra mati, meðal annars þess sem þessar línur skrifar.
Sjá alla fréttaskýringu Ívars Benediktssonar um íslenska landsliðið í Morgunblaðinu í dag