Katar er komið í undanúrslit HM í handknattleik í fyrsta sinn en liðið sló út Þýskaland, undir stjórn Dags Sigurðssonar, í 8-liða úrslitunum í dag með tveggja marka sigri, 26:24.
Katar mætir því Póllandi í undanúrslitunum en Dagur og hans menn geta mest náð 5. sæti úr því sem komið er.
Katar hafði yfirhöndina nær allan leikinn og náði mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleiknum, 16:9. Þýskaland náði að minnka muninn í fjögur mörk á lokasekúndu fyrri hálfleiks og var staðan að honum loknum 18:14.
Munurinn á liðunum hélst í 2-3 mörkum stærstan hluta seinni hálfleiks en Þjóðverjar fóru illa með fjölda tækifæra til að minnka muninn niður í eitt mark. Undir lokin virtist enginn reiðubúinn að taka af skarið í sóknarleik liðsins þegar mest lá við.
Heimamenn í Katar eru vel að sigrinum komnir en þeir léku sterka vörn og markverðir liðsins, Danjel Saric og Goran Stojanovic, vörðu vel. Saric varði til að mynda frábærlega frá Patrick Grötzki undir lokin og tryggði Katar sigurinn.
Rafael Capote var markahæstur Katar með 8 mörk og Zarko Markovic skoraði 6. Hjá Þýskalandi var Uwe Gensheimer markahæstur með 5 mörk og Silvio Heinevetter varði mjög vel í markinu eftir að hafa komið inná um miðjan fyrri hálfleik.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is og má lesa stöðuuppfærslu leikjanna hér að neðan.
60. Leik lokið. Katar er komið í undanúrslitin! Lokatölur 26:24.
60. (26:24) Katar er með boltann og 43 sekúndur eftir. Rivera tekur leikhlé. Heimamenn eru á leiðinni í undanúrslit á HM í fyrsta sinn.
59. (26:24) Danjel Saric varði frá Grötzki úr horninu þegar ein og hálf mínúta var eftir, og svo aftur úr hraðaupphlaupi þegar nákvæmlega mínúta var eftir. Hann er að klára dæmið fyrir Katar.
58. (26:24) Vonlausar sóknir hjá Þjóðverjum nú þegar mest liggur við. Það virðist enginn reiðubúinn að taka af skarið. Katar með boltann og sléttar þrjár mínútur eftir.
55. (25:23) Aftur fengu Þjóðverjar tækifæri til að koma muninum niður í eitt mark en sókn þeirra var ráðleysisleg og bar ekki árangur. Enn er þó nægur tími til stefnu.
52. (25:22) Þjóðverjar fengu tvö tækifæri til að minnka muninn í eitt mark en náðu ekki að nýta sér það. Rafael Capote hefur verið besti sóknarmaður Katar og er kominn með 8 mörk.
46. (23:21) Munurinn hefur haldist í 2-3 mörkum undanfarnar mínútur. Þjóðverjar hafa korter til að breyta því.
39. (20:18) Valero Rivera, hinn spænski þjálfari Katar, tekur leikhlé enda munurinn kominn niður í tvö mörk. Nú er útlit fyrir spennandi lokakafla.
37. (20:17) Þjóðverjar stóðu það vel af sér að vera manni færri síðustu tvær mínútur og voru nú að minnka muninn í þrjú mörk. Það gerði Martin Strobel með góðu skoti.
31. (18:14) Fjögurra marka munur er fjarri því að vera óyfirstíganlegur fyrir Dag og hans menn. Seinni hálfleikur hafinn.
30. Hálfleikur. (18:14) Staðan er 18:14 í leikhléi eftir að Þýskaland skoraði tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks. Katarbúar hafa leikið við hvern sinn fingur og skoruðu glæsilegt sirkusmark seint í fyrri hálfleiknum. Þeir náðu mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleiknum, 16:9. Vörnin hefur verið sterk og markverðir liðsins staðið sig vel. Í sókninni hefur línutröllið Borja Vidal skipt sköpum en hann hefur skorað fjögur mörk og fiskað tvö víti. Zarko Markovic og Rafael Capote hafa einnig gert fjögur mörk hvor. Hjá Þýskalandi eru Steffen Weinhold og Uwe Gensheimer markahæstir með þrjú mörk hvor. Silvio Heinevetter kom í mark Þýskalands á 18. mínútu og varði vel.
26. (15:9) Goran Stojanovic kemur inná í mark Katar þegar Þjóðverjar fá víti og er búinn að verja tvívegis frá Uwe Gensheimer. Það munar um minna.
23. (14:8) Carsten Lichtlein varði varla skot í marki Þjóðverja og var skipt af velli eftir 17 mínútna leik. Silvio Heinevetter kom inná og hefur verið að verja mjög vel en Katar er engu að síður sex mörkum yfir, 14:8.
17. (10:6) Dagur tekur leikhlé enda ekki sáttur við að vera 3-4 mörkum undir gegn Katar. Þýska sóknin gengur illa gegn sterkri vörn Katar með Saric góðan í markinu. Það er mikill hiti í leiknum.
13. (6:3) Zarko Markovic var að skora úr tveimur vítaköstum í röð. Munurinn þrjú mörk. Vaskleg byrjun heimamanna.
6. (1:1) Liðunum gengur illa að skora og staðan er enn 1:1. Danjel Saric var að verja frábæra frá Patrick Grötzki úr hraðaupphlaupi.
1. Leikur hafinn. Þjóðverjar byrja með boltann. Staðan verður uppfærð í fyrirsögn og hægt að sjá hana með því að endurhlaða síðuna (F5).
0. Katarbúar hafa kannski komið einhverjum á óvart með frammistöðu sinni á HM en lið þeirra er sterkt, skipað að stærstum hluta leikmönnum sem eru fæddir í öðrum og þekktari handboltalöndum. Þjálfarinn er svo Spánverjinn sigursæli Valero Rivera.
0. Tapliðið í dag hefur ekki lokið keppni vegna þess að leikið er um sæti 5-8. Sæti 5, 6 og 7 gefa þátttökurétt í undankeppni Ólympíuleikanna, og Dagur er því langt kominn með að skila Þýskalandi í hana.
0. Þýskaland sló út Egyptaland af öryggi í 16-liða úrslitunum með öflugri vörn og frábærri markvörslu, en Katar hafði betur gegn Patreki Jóhannessyni og hans mönnum í Austurríki í jöfnum leik. Mörgum þótti dómgæslan hliðholl heimamönnum og það er spurning hvort sú verði aftur raunin í dag.