„Áhorfendur á leiknum í kvöld urðu vitni að einhverjum stórkostlegasta leik hornamanns sem ég hef séð á öllum mínum ferli,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana, um frammistöðu Lasse Svan, hornamanns danska landsliðsins, sem skoraði 13 mörk úr jafnmörgum tilraunum gegn Slóveníu á heimsmeistaramótinu í kvöld.
„Ég hef aldrei séð annað eins hjá hornamanni. Lasse var frábær. Hann skoraði mjög fjölbreytt mörk og ekkert úr vítakasti. Það er einstakt afrek hjá manni sem skorar 13 mörk í leik,“ sagði Guðmundur Þórður sem skipti leiknum ekki á milli Svan og Hans Lindberg eins og hann er vanur að gera. „Ég fann að hann var í formi og ég ákvað að láta hann klára leikinn. Ég á þá Lindberg inni fyrir morgundaginn,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, en danska og króatíska landsliðið mætast í leik um fimmta sætið á heimsmeistaramótinu í handknattleik á morgun.