Það mun eflaust mæða mikið á Nikola Karabatic í liði Frakka þegar Evrópu- og ólympíumeistararnir mæta heimsmeisturum Spánverja í undanúrslitum á HM í handbolta í Katar í kvöld.
„Við viljum að sjálfsögðu gjarnan verða heimsmeistarar en fyrst þurfum við að komast í gegnum mjög erfiðan leik í undanúrslitunum á móti Spáni. Mín skoðun er sú að Spánverjarnir séu sigurstranglegri. Þeir hafa unnið bæði Katar og Danmörk, sem eru tvö af sterkustu liðunum á mótinu,“ segir Karabatic.
Spánverjar hafa unnið alla sjö leiki sína á mótinu en Frakkar hafa unnið sex leiki en gert eitt jafntefli sem leit dagsins ljós á móti Íslendingum.
Í hinni undanúrslitaviðureigninni spila Pólland og Katar.