Lið Katar skráði nafn sitt í sögubækur handboltans í gær þegar það tryggði sér sæti í úrslitaleik heimsmeistaramótsins með sigri gegn Pólverjum.
Þetta er í fyrsta skipti sem lið utan Evrópu kemst í úrslitaleikinn um heimsmeistaratitilinn og þetta er í fyrsta skipti sem lið frá Asíu nær svo langt á HM.
Katar mætir margföldum heimsmeisturum Frakka í úrslitaleiknum í Doha á morgun en Frakkar eru ríkjandi Evrópu- og ólympíumeistarar.
Valero Rivera þjálfari Katara getur líka komist í sögubækurnar en verði Katar heimsmeistari gerist það í fyrsta sinn sem þjálfari ver titilinn en hann gerði Spánverja að heimsmeisturum á HM á Spáni 2013.