Fyrsta stigið á HM

Staðan í riðli Íslands í B-riðli á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Metz í Frakklandi er að verða snúin eftir að Ísland og Túnis gerðu jafntefli 22:22 í þriðju umferð riðlakeppninnar. Ísland þarf væntanlega að vinna bæði Angóla og Makedóníu til að komast í 16-liða úrslitin. 

Makedónía, Spánn og Slóvenía eru með 4 stig hvert en Ísland, og Túnis með stig og Angóla er án stiga. Hinir tveir leikirnir í þriðju umferð í riðlinum eiga eftir að fara fram. Makedónía vann Túnis í fyrstu umferð og Túnis á því eftir að mæta Slóveníu en Ísland er búið að leika við tvö sterkustu liðin: Spán og Slóveníu, en þeir leikir töpuðust báðir. 

Eftir erfiðan fyrri hálfleik þar sem Ísland lenti fjórum mörkum undir um tíma þá var útlitið orðið nokkuð gott um tíma í síðari hálfleik. Túnis var yfir 13:11 að loknum fyrri hálfleik. Íslenska liðið byrjaði afar vel í seinni hálfleik og vann upp forskotið á nokkrum mínútum og komst yfir. Túnis komst aftur yfir en þá náði Ísland aftur forystunni og var tveimur mörkum yfir og með boltann þegar 9 mínútur voru eftir. 

Lokakaflinn var hins vegar erfiður fyrir bæði liðin. Ísland fór í sókn í stöðunni 22:22 þegar um mínúta var eftir. Ekki skapaðist gott færi í þeirri sókn og Ásgeir Örn skaut af fremur löngu færi þegar 20 sekúndur voru eftir. Túnis fékk því síðustu sóknina og Aron Rafn Eðvarsson varði á síðustu sekúndunni. 

Aron lék í markinu í síðari hálfleik og stóð sig vel. Hann varði 8 skot í síðari hálfleik og á sinn þátt í því að Ísland náði stigi. Eins og ég skrifaði í hálfleik þá þurfti íslenska liðið fleiri mörk úr hraðaupphlaupum til að eiga möguleika. Þau komu í seinni hálfleik. Vörnin var sterk í seinni hálfleik og þá komu nokkur mörk úr hraðaupphlaupum frá Guðjóni, Ómari og Ólafi. Þau voru dýrmæt en á móti kom að okkar menn gerðu alltof mörg mistök í sókninni. Allt of margar sóknir runnu út í sandinn vegna lélegra sendinga og ýmissa tæknimistaka. Menn hafa bara ekki efni á slíku á HM. En sem betur fer gerðu Túnisbúar einnig sín mistök. 

Eins og áður nýtti Geir leikmannahópinn býsna vel og margir komu við sögu. Ungu mennirnir Arnar, Ómar og Janus átti til dæmis allir fína spretti. Guðjón nýttist vel í hraðaupphlaupum, Rúnar var áræðinn og Bjarki Már Gunnars kom sterkur inn í miðja vörnina. Sérstaklega var hann góður í seinni hálfleik. Eins og áður segir var Aron Rafn sterkur í seinni hálfleik. Geir Sveinsson er búinn að setja saman öfluga vörn þrátt fyrir að íslenska liðið vanti hávaxna og þunga menn í samanburði við sterkustu þjóðirnar. 

Ísland er enn í baráttu um þriðja sætið en þá þarf liðið að vinna báða leikina sem eftir eru. Síðasti leikurinn í riðlinum gegn Makedóníu verður væntanlega úrslitaleikur um að komast í 16-liða úrslitin. 

Ísland 22:22 Túnis opna loka
60. mín. Makrem Missaoui (Túnis) varði skot Erfitt skot af löngu færi hjá Ásgeiri. 20 sek eftir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert