„Það eru jákvæð teikn á lofti“

Rúnar í baráttu við Daniel Narcisse og Nikola Karabatic í …
Rúnar í baráttu við Daniel Narcisse og Nikola Karabatic í leiknum í dag. AFP

„Vitaskuld er maður svekktur að við séum úr leik en ég er ánægður með fínan leik okkar. Við vorum alveg viss um það að við gætum sett upp flottan leik og það vantaði ekki mikið upp á að við gerðum þeim lífið ansi leitt,“ sagði skyttan Rúnar Kárason við mbl.is eftir tapið gegn heimsmeisturum Frakka í 16-liða úrslitunum á HM í handknattleik í kvöld.

Rúnar var markahæstur í íslenska liðinu með 7 mörk sem hann skoraði flest með þrumuskotum sem hinn frábæri markvörður Thierry Omeyer réð ekki við.

„Það sem fór með leikinn fyrir okkur var þessi vonda byrjun okkar í seinni hálfleik þar sem þeir skoruðu sex mörk á móti einu. Við náðum samt að berjast aftur inn í leikinn og held að við höfum gert allt sem við gátum.

Mér fannst ég vera óheppinn með skot í fyrri hálfleik en Frakkarnir voru að gefa mér nokkrar opnanir og gamli karlinn í markinu varði ekkert uppi. Það virkaði því bara fínt að þruma boltanum efst í markið. Mér finnst liðið heilt yfir hafa gert góða hluti á mörgum sviðum á mótinu og í mörgum leikjum skorti okkur herslumuninn til að vinna.

Svekkelsi er kannski þema mótsins hjá okkur en það er margt jákvætt líka. Við erum á réttri leið. Það eru jákvæð teikn á lofti. Mér finnst við hafa þroskast sem lið og ég finn til dæmis hvernig liðið treystir mér betur,“ sagði Rúnar Kárason.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert