Íslenska landsliðið í handknattleik karla vann öruggan sigur á landsliði Barein, 36:18, í Ólympíuhöllinni í München í dag. Þar með er fyrsti vinningur íslenska landsliðsins á mótinu í höfn. Næsti leikur verður gegn landsliði Japan á miðvikudaginn og lokaleikur riðlakeppninnar daginn eftir á móti Makedóníu.
Aldrei lék vafi á hvort liðið væri öflugra í leiknum í dag, kannski eins og fyrir fram var búist við. Um einstefnu var að ræða af hálfu íslenska liðsins sem var með sex marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:10. Óhætt er að segja að Bareinar, undir stjórn Arons Kristjánssonar, hafi fengið á baukinn.
Leiðir liðanna skildi fljótlega enda gæðamunurinn talsverður, íslenska liðinu í dag. Björgvin varði tvö vítaköst á fyrstu tíu mínútum og hraður sóknarleikur Íslands sundlék vörn Bareina. Ekki bætti úr skák fyrir Bareina að einn þeirra besti maður, Mohamed Habib, fékk rautt spjald snemma fyrir að kasta boltanum í höfuðið á Björgvin úr vítakasti. Annar leikmaður Barein var stálheppinn að fjúka ekki út af með rautt spjald síðar í hálfleiknum eftir að vítakast hans hafnaði einnig í enni Björgvins Páls. Þá meiddist Ali Merza á ökkla og var talsvert frá.
Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan, 9:6, íslenska liðinu í vil. Fimm mínútum síðar var orðinn fimm marka munur, 11:6. Þá var komin meiri ró yfir varnarleik íslenska liðsins og mönnum gekk betur að verjast harla óvenjulegum handboltaleik Bareina auk þess sem Björgvin tók að verja þegar á leið. Þess utan virtist þreyta komin í leikmenn Bareina sem braust m.a. út að þeir létu skapið hlaupa með sig í gönur á tíðum. Líkamlegir burðir sögðu til sín og munurinn á liðunum í þeim efnum átti bara eftir að verða skýrari eftir því sem á leikinn leið.
Munurinn hélt áfram að aukast og var sex mörk að loknum fyrri hálfleik, 16:10, eftir að Bareinar skoruðu úr vítakasti eftir að leiktíminn var úti. Löngu áður en hálfleikurinn var úti var Guðmundur byrjaður að hreyfa mikið til í íslenska liðinu og þegar fyrri hálfleikur var á enda höfðu allir leikmenn Íslands komið við sögu að Ágústi Elí Björgvinssyni undanskildum. Reyndar hafði Stefán Rafn aðeins komið við sögu í einu vítakasti.
Allt gekk íslenska liðinu í hag á upphafsmínútum síðari hálfleik. Það litla loft sem var í blöðru Bareina virtist vera lekið út í veður og vind. Björgvin Páll reyndist Bareinum erfiður. Hann varði vel og kom boltanum hratt fram og íslenska liðið skoraði hvert markið á fætur öðru eftir hraðaupphlaup. Munurinn var orðinn tíu mörk, 21:11, eftir sjö mínútur í síðari hálfleik.
Það átti bara eftir að halla enn frekar undan fæti hjá Bareinum. Þeir sáu á eftir öðru leikmanni sínum af velli með rautt spjald áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður. Sá slæmdi hendi í andlit Ólafs Guðmundssonar.
Eins mikivægt og það var að vinna leikinn skipti einnig miklu máli að dreifa álaginu milli manna og spara eins mikla orku og hægt var fyrir átökin sem fram undan eru.
Síðustu 15 til 20 mínúturnar var meðalaldur þeirra leikmanna sem léku fyrir íslenska liðið rétt rúmlega 20 ár. Athyglisverð staðreynd en gleðileg að sama skapi.
Um lokakaflann er lítið annað að segja en að þar lék kötturinn sér að músinni, eins og við mátti búast. Það var afar sannfærandi hjá íslenska liðinu að leika af krafti allt til enda þótt markamunurinn hafi e.t.v. ekki allt að segja þegar dæmið er gert upp.