Barningssigur á japanska landsliðinu

Íslenska landsliðið vann japanska landsliðið, 25:21, eftir talsverðan barning á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Ólympíuhöllinni í München í dag. Þar með er íslenska liðið komið með fjögur stig og leikur væntanlega á morgun úrslitaleik við landslið Makedóníu um þriðja sæti riðilsins og keppnisrétt í milliriðli.

Staðan í hálfleik var 13:12, Íslandi í vil. Lengst af var leikurinn í járnum.

Íslenska landsliðið hóf leikinn af miklum krafti og skoraði sex af fyrstu níu  mörkum leiksins á upphafsmínútum leiks. Eftir það komu þrjár sóknir í röð þar sem leikmenn liðsins hittu ekki markið og Japanar náðu að minnka muninn í eitt mark, 6:5.

Munurinn var ekki nema eitt mark þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður, 7:6, ekki síst vegna þess að sóknarleikurinn brást, leikmenn hittu ekki markið hvað eftir annað úr upplögðum færum. Japanar jöfnuðu metin, 7:7,  eftir hálfa sautjándu mínútu. Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari tók leikhlé eftir 20 mínútur í stöðunni 9:8, eftir að Aron Pálmarsson hafði komið Íslandi yfir í sókninni á undan og japanski línumaðurinn kastað yfir markið úr ágætu færi í framhaldinu.

Japan komst yfir, 12:11, í fyrsta sinn í leiknum þegar þrjár mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Tvö síðustu mörk hálfleiksins voru íslensk. Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði úr vítakasti og Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði eftir hraðaupphlaup innan við mínútu fyrir lok hálfleiksins. Sigvaldi Björn var þá nýkominn inn á fyrir Arnór Þór Gunnarsson sem fékk högg á sig í vörninni.

Eftir ágætar upphafsmínútur var skotnýting íslenska liðsins afleit í fyrri hálfleik þótt markverðir japanska liðsins verðu ekki nema samtals þrjú skot. Íslenska liðið skoraði vart mark eftir uppstilltan leik í fyrri hálfleik og helmingur markanna var skoraður á fyrstu átta mínútum hálfleiksins.

Sumir íslensku áhorfendanna höfðu ekki komið sér fyrir í áhorfendastúkunni í byrjun seinni hálfleiks þegar japanska liðið hafði jafnað metin, 13:13.

Ómar Ingi Magnússon skoraði 14. markið í kjölfarið. Björgvin Páll Gústavsson kom í veg fyrir að íslenska liðið lenti undir á ný með því að verja skot eftir hraðaupphlaup og skot úr opnum færum. Akihito Kai, markvörður Japana, vaknaði í upphafi síðari hálfleiks eftir að hafa verið daufur þann tíma sem hann stóð í markinu í fyrri hálfleik. Kai var maður leiksins þegar japanska liðið velgdi spænska landsliðinu undir uggum í fyrrakvöld.

Barningurinn hélt áfram og áfram munaði aðeins einu marki, 16:15, Íslandi í vil eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik.

Hiroki Shida, leikmaður Japans, fékk beint rautt spjald eftir 11 mínútur fyrir að brjóta á Stefáni Rafni Sigurmannssyni í opnu færi eftir hraðaupphlaup.

Ísland náði þriggja marka forskoti, 19:16, í fyrsta sinn síðan snemma í fyrri hálfleik um miðjan síðari hálfleik.

Tíu mínútum fyrir leikslok skoraði Arnór Þór eftir hraðaupphlaup og breytti stöðunni í 21:18. Ekkert gekk að hrista japanska liðið af sér og það minnkað muninn í eitt mark í enn eitt skiptið, 21:20, þegar rúmlega sex mínútur voru eftir af leiktímanum.

Eftir leikhlé tæpum sex mínútum fyrir leikslok skoraði íslenska liðið þrjú mörk í röð og náði fjögurra marka forskoti, 24:20, með marki Stefáns Rafns tveimur mínútum fyrir leikslok. Þá loks var hægt að slá íslenski sigri föstum.

Sannarlega barningssigur á japanska liðinu og ljóst að margt þarf íslenska liðið að bæta fyrir leikinn mikilvæga við Makedóníumenn annað kvöld, ekki síst í sóknarleiknum. Varnarleikur íslenska liðsins var hinsvegar góður og eins var markvarslan viðunandi. 

Japan 21:25 Ísland opna loka
60. mín. Ómar Ingi Magnússon (Ísland) skoraði mark Japan fer ekki í maður á mann vörn og Ómari Ingi fær þá tækifæri til þess að stökkva upp og skora.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert