„Frammistaðan var stórkostleg“

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, veltir vöngum í …
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, veltir vöngum í leiknum við Makedóníu í Ólymppíuhöllinni í München í kvöld. AFP

„Frammistaðan var stórkostleg,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, í samtali við mbl.is eftir sigurinn magnaða í kvöld, 24:22,  á Makedóníu sem tryggði íslenska landsliðinu sæti í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins.

„Þrátt fyrir að sóknarleikurinn gengi ekki sem skyldi í fyrri hálfleik var mín tilfinning sú að við myndum komast yfir. Það gekk hins vegar erfiðlega og stundum var um að ræða hreina óheppni,“ sagði Guðmundur sem sagðist hafa farið vel yfir allar leikaðferðir í hálfleik. „Ég vildi ekki að við tækjum upp neitt nýtt heldur lékjum betur það sem við höfðum verið að leika. Eina undantekningin var leikkerfið sem liðið lék í fyrstu sókninni. Það var ekki í upphaflega vopnabúrinu og skilaði frábæru marki,“ sagði Guðmundur Þórður, sem var fram á síðustu sekúndu hálfleiksins að segja mönnum sínum til.

„Við héldum áfram að leika sömu aðferðir í síðari hálfleik en gerðum það bara betur,“ sagði Guðmundur. Hann átti varla nógu sterk lýsingarorð til yfir varnarleikinn hjá íslenska liðinu.

„Varnarleikurinn var frábær og markvarslan stórkostleg. Björgvin átti stórleik og vörnin fyrir framan hann var í heimsklassa. Ég hika ekki við að segja það,“ sagði Guðmundur Þórður. „Varnarleikurinn hefur vaxið eftir því sem á líður mótið. Hins vegar á ég erfitt með að átta mig hver línan er í dómgæslunni en það er annað mál.“

Fyrsta markmið íslenska landsliðsins er í höfn, sæti í milliriðlakeppninni og vera eitt af tólf bestu liðum mótsins. „Nú setjum við okkur annað markmið. Það er frábært tækifæri fyrir þetta unga lið að komast í milliriðil á stórmóti,“ segir Guðmundur sem vísar til þess að á EM 2016 og 2018 hafi íslenska landsliðið helst úr lestinni eftir riðlakeppnina og fallið úr leik í 16-liða úrslitum á HM 2013, 2015 og 2017.

„Unga liðið hefur brotið ísinn og náð markmiði sínu. Það er mjög mikilvægur áfangi. Nú fær liðið að reyna sig við nokkur af bestu liðum heims við frábærar aðstæður,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert