Haukur Þrastarson og Óðinn Þór Ríkharðsson hafa verið kallaðir inn í íslenska landsliðið í handknattleik sem mætir heimsmeisturum Frakka í kvöld á heimsmeistaramótinu í handknattleik vegna meiðsla Arons Pálmarssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, ákvað fyrir stundu að kalla þá Hauk og Óðin Þór inn í hópinn vegna meiðsla Arons og Arnórs Þórs. Aron tognaði á nára eftir ríflega stundarfjórðungs leik gegn Þjóðverjum í Lanxess-Arena í gærkvöld og kom ekkert meira við sögu.
Arnór Þór tognaði á aftanverðu læri eftir um tíu mínútur í síðari hálfleik.
Strax eftir leikinn við Þjóðverja í gærkvöld lá í loftinu að gera þyrfti þessar breytingar á landsliðshópnum þar sem svo virtist sem meiðsli þeirra Arons og Arnórs Þórs væru alvarlegri en svo að þeir myndu jafna sig á innan við sólarhring.
Haukur hefur verið í íslenska hópnum frá því að hann kom til Þýskalands 9. janúar. Hann er aðeins 17 ára gamall og á að baki sex landsleiki sem hann hefur skorað í sjö mörk.
Óðinn Þór, sem er 21 árs, kemur til liðs við íslenska landsliðið upp úr hádeginu í dag en hann er búsettur í Danmörku þar sem hann leikur með danska úrvalsdeildarliðinu GOG Gudme í nágrenni Óðinsvéa á Fjóni. Óðinn Þór á að baki 11 landsleiki og 42 mörk.
Þar með lækkar enn meira meðalaldur íslenska landsliðsins á HM.
Leikur Íslands og Frakklands hefst klukkan 19.30 í kvöld í Lanxess-Arena í Köln.