„Ég er mjög sáttur. Þetta var frábærlega vel leikinn leikur hjá okkur bæði í vörn og sókn,“ sagði landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson í samtali við RÚV eftir 39:24-sigur Íslands á Alsír á HM karla í handbolta í Egyptalandi.
„Ég fann það í upphitun að leikmenn væru mjög vel stemmdir. Við náðum að fylgja eftir þeim varnarleik sem við höfum sýnt í síðustu leikjum og við fengum góða markvörslu. Sóknarleikurinn gekk svo frábærlega. Hann var mjög vel útfærður, agaður. Við spiluðum ekki mörg kerfi en við gerðum það sem við ætluðum okkur og gerðum það mjög vel,“ sagði sáttur landsliðsþjálfari og hélt svo áfram.
„Þetta var stórkostlega vel útfært og alls ekki einfalt. Þetta lið er erfiður andstæðingur að öllu jöfnu en varnarleikurinn var frábær og við fengum vörslu og hraðaupphlaup í kjölfarið. Útfærslan á þessum leik var frábær og við fáum inn menn með flotta innkomu. Það var mjög ánægjulegt að fá meiri breidd í liðið.“
Guðmundur á von á svipuðum andstæðingi í Marokkó á mánudaginn kemur, en bæði Marokkó og Alsír spila framliggjandi varnarleik. „Við vorum lítið búnir að æfa á móti þessari framliggjandi vörn. Við flæktum hlutina ekki of mikið heldur fórum vel yfir það sem við ætluðum að spila. Það gekk fullkomlega upp og vonandi getum við tekið það með okkur í næsta leik,“ sagði Guðmundur.