Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik, er ósáttur með þá umfjöllun sem íslenska liðið hefur fengið á HM í Egyptalandi að undanförnu.
Ísland hefur unnið tvo leiki á mótinu til þessa og tapað tveimur, gegn Portúgal og Sviss, en fjölmiðlar hafa verið duglegir að gagnrýna liðið eftir tapið gegn Sviss í fyrsta leik sínum í milliriðli á miðvikudaginn.
Guðmundur ræddi við RÚV um leikinn gegn Frökkum og þá gagnrýni sem liðið hefur fengið á sig.
„Við fáum ítrekuð færi gegn Sviss og við töldum saman einhver átta dauðafæri gegn þeim,“ sagði Guðmundur í samtali við RÚV.
„Í svona jöfnum leik þá er bara allt of dýrt að klikka á svona færum og það hreinlega má ekki,“ bætti þjálfarinn við.
Þá lét hann sérfræðinga RÚV um HM, þá Loga Geirsson og Arnar Pétursson heyra það.
„Það er ákveðið óöryggi yfir liðinu og það getur vel verið að menn séu búnir að spila upp einhverjar væntingar sem menn eiga erfitt með að standa undir, sérstaklega þegar liðið hefur orðið fyrir þeim skakkaföllum sem það hefur orðið fyrir.
Menn eru alltaf að reyna setja þetta upp þannig að liðið eigi að vera í einhverju bílstjórasæti. Þetta er er einhver íslensk minnimáttarkennd sem brýst út, sérstaklega hjá þessum stóru sérfræðingum hjá RÚV,“ sagði Guðmundur.