Þetta er algjörlega toppurinn

Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld.
Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnusson

Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta var sáttur eftir sigur á Portúgal í Kristianstad í Svíþjóð í fyrsta leik heimsmeistaramótsins í kvöld.

„Bjöggi tók mikilvæga bolta og við vorum þolinmóðir. Þeir spiluðu vel, sérstaklega varnarlega, við vorum slakir sóknarlega. Vörn og markvarsla var fín og ég er bara sáttur við það. Við héldum haus í lokin og fengum einstaklingsframtök sem kláruðu þennan leik.“

Aron sækir á portúgölsku vörnina í kvöld.
Aron sækir á portúgölsku vörnina í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leikurinn var mjög jafn nánast allan tímann en íslenska liðið komst skrefi á undan þegar lítið var eftir.

„Portúgalir eru svona. Þeir eru aldrei langt á eftir manni, þetta er gott og vel skipulagt lið, sérstaklega varnarlega. Ég hefði viljað sjá okkur slíta okkur aðeins frá þeim þegar korter var eftir, þá gafst tækifæri til þess, en við fórum illa með það. Þeir eru með það gott lið að þeir komu til baka eftir það en ég er ánægður með að klára þetta og ná í tvö stig í fyrsta leik.“

Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld.
Aron Pálmarsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stemningin í höllinni í Kristianstad var rosaleg en um 1000 Íslendingar voru mættir til að styðja strákana.

„Þetta er bara algjörlega toppurinn. Maður getur ekki beðið um neitt betra, þetta er bara eins og að vera á heimavelli. Algjörlega geggjaðir áhorfendur. Maður reynir að einbeita sér að leiknum en í þjóðsöngnum og núna eftir leik, þetta gerir mikið fyrir mann.“

Það er stutt á milli leikja hjá íslenska liðinu en næsti leikur er gegn Ungverjum strax á laugardaginn. Hvað gefur þetta liðinu að hafa klárað þennan fyrsta leik?

„Við höfum ekki tíma í að fagna þessu, þetta er bara búið og gert. Við ætluðum okkur að gera þetta, fá tvö stig og einbeita okkur svo að Ungverjum.“

Aron leitar leiða framhjá vörn Portúgala í kvöld.
Aron leitar leiða framhjá vörn Portúgala í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elliði Snær Viðarsson skoraði frábært mark þegar mikið var undir í seinni hálfleik en hann skoraði þá beint frá miðju. Aron var ánægður með liðsfélaga sinn.

„Mér leið mjög vel með það, ég vil að hann geri þetta. Þetta er einn af hans styrkleikum, að gera stundum svolítið „crazy“ hluti. Yfirleitt heppnast þeir og þá getur maður hlegið og haft gaman af því. Þetta var náttúrlega bara geðveikt mark hjá honum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert