Risasigur Íslands og sæti í milliriðli tryggt

Ísland vann sérlega öruggan 38:25-sigur á Suður-Kóreu í lokaleik liðanna í D-riðli á HM karla í handbolta í Kristianstad í kvöld.

Íslenska liðið lýkur því leik með fjögur stig í riðlinum og tekur tvö þeirra með sér í milliriðil, þar sem liðið leikur við Svíþjóð, Brasilíu og Grænhöfðaeyjar í Gautaborg.

Lokastaða íslenska liðsins í riðlinum kemur í ljós þegar leikur Ungverjalands og Portúgals lýkur síðar í kvöld.

Suður-Kórea skoraði fyrsta mark leiksins, en eftir það var komið að Íslandi, því íslenska liðið skoraði næstu sex mörk og komst í 6:1. Íslenska liðið hélt áfram að keyra yfir það suðurkóreska og var staðan 10:4 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður.

Munurinn varð mestur átta mörk í fyrri hálfleik, 15:7. Þá tók suðurkóreska liðið við sér og með 5:1-kafla tókst því að minnka muninn í fjögur mörk, 16:12. Íslenska liðið skoraði hins vegar tvö síðustu mörkin og var með sex marka forskot í hálfleik, 19:13.

Óðinn Þór Ríkarðsson fékk sínar fyrstu mínútur á mótinu og hann nýtti þær afar vel. Var hann markahæstur í hálfleiknum með átta mörk. Félagi hans í horninu Bjarki Már Elísson gerði fimm. Viktor Gísli Hallgrímsson byrjaði í fyrsta skipti í markinu og hann varði 13 skot, þar af eitt víti, og stóð mjög vel fyrir sínu.

Íslenska liðið hélt áfram að bæta í forskotið í seinni hálfleik og með góðum kafla framan af honum var munurinn orðinn þrettán mörk þegar seinni hálfleikur var rúmlega hálfnaður, 30:17.

Var eftirleikurinn afar auðveldur eftir það og ljóst að leikmenn Íslands voru með blóð á tönnunum eftir tapið vonda gegn Ungverjalandi.

Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur í íslenska liðinu með 11 mörk og Bjarki Már Elísson skoraði 8 og Viggó Kristjánsson 6. Viktor Gísli Hallgrímsson átti mjög góðan leik í markinu og varði 23 skot.

Synir Íslands eru vefþættir sem framleiddir eru af Studio M en í þáttunum eru lykilmenn íslenska liðsins heimsóttir. Hægt er að horfa á þættina með því að smella hér.

Suður-Kórea 25:38 Ísland opna loka
60. mín. Suður-Kórea tapar boltanum
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert