Ísland vann góðan endurkomusigur á Brasilíu, 41:37, í lokaleik liðsins á HM karla í handbolta í Gautaborg í kvöld. Með sigrinum fór Ísland í sex stig í milliriðli II, en það dugði ekki til að fara áfram í átta liða úrslit.
Ísland getur þar með enn endað í þriðja sæti riðilsins, sem gæti reynst dýrmætt í baráttunni um að komast í undankeppni fyrir Ólympíuleikana, en það ræðst endanlega í kvöld þegar Svíþjóð mætir Portúgal. Sigur Portúgals myndi ýta Íslandi niður í fjórða sæti riðilsins og þar með væru Ólympíumöguleikarnir úr sögunni.
Íslenska vörnin réð ekkert við brasilísku sóknina í fyrri hálfleik, því staðan í leikhléi var 22:18. Sem betur fer var sóknarleikur íslenska liðsins í góðu lagi, en Ísland á ekki að fá á sig 22 mörk í einum hálfleik á móti Brasilíu.
Hvað eftir annað fundu Brasilíumenn auðvelda leið fram hjá flatri vörn Íslands og skoruðu auðveld mörk. Þá komst Brasilía hvað eftir annað á vítalínuna og nýtti vín vel. Markverðirnir fengu litla hjálp frá vörninni og vörðu lítið.
Hinum megin gekk sóknin fínt og var Gísli Þorgeir Kristjánsson duglegur í að búa til hvert markið á fætur öðru fyrir liðsfélaga sína. Þá skoraði Kristján Örn Kristjánsson fjögur mörk í hálfleiknum, þrátt fyrir að hafa fengið tvær brottvísanir og verið tekinn af velli undir lok hálfleiksins.
Ísland hefði alveg eins getað verið með jafna stöðu hröðum og skemmtilegum fyrri hálfleik, en Leonardo Vial Tercariol varði nokkrum sinnum mjög vel úr virkilega góðum færum.
Íslenska liðið byrjaði mun betur í seinni hálfleik og var fljótt að minnka muninn í eitt mark, 23:22. Munaði mest um markvörslu Viktors Gísla Hallgrímssonar, sem byrjaði afar vel í hálfleiknum.
Þá tóku Brasilíumenn leikhlé og voru fljótir að ná fjögurra marka forskoti í kjölfarið, 27:23. Íslenska liðið neitaði hins vegar að gefast upp og með fínum kafla tókst því að minnka muninn aftur í eitt mark, 30:29.
Ísland jafnaði svo í 32:32, þegar rúmar tíu mínútur voru eftir, og var það í fyrsta skipti frá því í upphafi leiks sem staðan var jöfn.
Gísli Þorgeir Kristjánsson kom Íslandi svo yfir í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 35:34, sjö mínútum fyrir leikslok og Kristján Örn kom íslenska liðinu í 36:34 skömmu síðar. Tókst Brasilíu ekki að jafna eftir það og sætur íslenskur sigur varð raunin.
Bjarki Már Elísson skoraði níu mörk fyrir Ísland og var markahæstur. Kristján Örn Kristjánsson skoraði átta og Sigvaldi Björn Guðjónsson sex.