Svíar hjálpuðu Íslendingum og sendu Ungverja áfram

Eric Johansson skorar fyrir Svía í leiknum við Portúgal í …
Eric Johansson skorar fyrir Svía í leiknum við Portúgal í kvöld. AFP/Adam Ihse

Svíar réttu Íslendingum hjálparhönd með því að sigra Portúgal, 32:30, í lokaleik annars milliriðils heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Gautaborg í kvöld.

Með sigri Svía endar íslenska liðið í þriðja sæti riðilsins og á þar með enn möguleika á að komast í undankeppni Ólympíuleikanna 2024, því með úrslitunum er ljóst að Ísland endar í einhverju af sætum níu til tólf á þessu heimsmeistaramóti.

Liðin sem enda í níunda og tíunda sæti fá líklega sæti í undankeppninni en það liggur þó ekki endanlega fyrir fyrr en að loknu Evrópumótinu í janúar á næsta ári.

Portúgal hefði komist í átta liða úrslit með sigri og þá hefði Ísland endað í fjórða sæti riðilsins og þar með í 13.-16. sæti á mótinu.

Svíar unnu riðilinn með 10 stig, Ungverjaland fékk 6 stig og kemst í átta liða úrslitin á innbyrðis viðureigninni við Ísland sem fékk einnig 6 stig. Portúgal situr eftir í fjórða sætinu með 5 stig en Brasilía fékk 3 stig og Grænhöfðaeyjar ekkert.

Daniel Pettersson skoraði átta mörk fyrir Svía í kvöld og Eric Johansson sjö en Antonio Areia skoraði átta mörk fyrir Portúgal og Victor Iturriza sjö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert