Elliði Snær Viðarsson og Bjarki Már Elísson eru í hópi tíu bestu leikmanna heimsmeistaramótsins í handknattleik, að mati tveggja sérfræðinga TV2 í Danmörku.
Daniel Svensson og Peter Bruun Jörgensen fjalla um mótið á TV2 sem sérfræðingar og voru fengnir til að velja tíu leikmenn hvor sem þeir teldu að hefðu staðið sig best á mótinu til þessa.
Svensson setti Elliða Snæ í sinn tíu manna hóp en Jörgensen valdi Bjarka í hóp þeirra tíu bestu.
Sérfræðingarnir voru sammála um að Kauldi Odriozola frá Spáni, Andreas Palicka markvörður Svía, Yehia El-Deraa frá Egyptalandi, Simon Pytlick og Mathias Gidsel frá Danmörku og Kay Smits frá Hollandi væru meðal tíu bestu leikmanna keppninnar.
Auk þess voru nefndir til sögunnar kappar eins og Mikkel Hansen, Jim Gottfridsson og Sander Sagosen.