Tap fyrir Belgíu í fyrsta leik

Landsliðið leikur í dag sinn fyrsta landsleik frá því riðilinn …
Landsliðið leikur í dag sinn fyrsta landsleik frá því riðilinn var haldin í Laugardalnum fyrir ári síðan. mbl.is/Golli

Ísland og Belgía áttust við í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Zagreb í Króatíu klukkan 11. Belgía sigraði 4:1 og skoraði Emil Alengård mark Íslands. Var þetta fyrsti leikur Íslands í keppninni í ár. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. 

Næsti leikur Íslands verður á sama tíma á morgun á móti Ástralíu.

Mark Íslands: Emil Alengård.

Stoðsending: Jón Benedikt Gíslason.

Maður leiksins hjá Íslandi: Emil Alengård.

Lið Íslands:

Markverðir: Dennis Hedström, Snorri Sigurbergsson.

Aðrir leikmenn: Björn Már Jakobsson, Ingvar Þór Jónsson, Robin Hedström, Jón Benedikt Gíslason, Emil Alengård, Orri Blöndal, Róbert Freyr Pálsson, Jónas Breki Magnússon, Pétur Maack, Björn Róbert Sigurðarson, Sigurður Óli Árnason, Brynjar Bergmann, Úlfar Jón Andrésson, Andri Már Mikaelsson, Jóhann Már Leifsson, Ingþór Árnason, Tómas Tjörvi Ómarsson, Egill Þormóðsson, Stefán Hrafnsson, Ólafur Hrafn Björnsson. 

60. mín: Leiknum er lokið. Belgía sigraði 4:1. Slæm byrjun íslenska liðsins í riðlinum en fyrirfram var búist við fremur jöfnum leik á milli þessara liða. 

57. mín: Staðan er 4:1 fyrir Belgíu. Leikurinn er smám saman að fjara út. Ísland reynir að sækja en gengur illa að skapa sér dauðafæri. 

52. mín: Staðan er 4:1 fyrir Belgíu. Belgarnir missa mann út af í brottvísun. Nú er tækifæri til að minnka muninn. 

50. mín: Staðan er 4:1 fyrir Belgíu. Róbert Freyr átti skot í stöngina en það var reyndar úr afar þröngu færi. 

46. mín: Staðan er 4:1 fyrir Belgíu. Lítið að gerast þessa stundina. Jóhann kom sér í gott færi en markvörður Belgíu sá við honum. 

41. mín: Staðan er 4:1 fyrir Belgíu. Orri fékk brottvísun. Íslendingar eru í tómu basli í þessum fyrsta leik keppninnar.

41. mín: Mark! Staðan er 4:1 fyrir Belgíu. Belgarnir skoruðu eftir aðeins fimmtán sekúndur í þriðja leikhluta. Skot af löngu fær sem Dennis átti að verja en missti hann undir sig. 

40. mín: Staðan er 3:1 fyrir Belgíu fyrir síðasta leikhlutann. Útlitið er ekki gott fyrir íslenska liðið sem er verulega ryðgað og á erfitt með að ná valdi á pökknum. Ef næsta mark verður íslenskt þá er þó nægur tími til að hleypa leiknum upp. 

36. mín: Mark! Staðan er 3:1 fyrir Belgíu. Vel útfærð sókn hjá Belgíu. Ingvar lenti einn á móti tveimur sóknarmönnum í vörninni og Belgarnir unnu vel úr þeirri stöðu og Mitch Morgan skoraði. 

32. mín: Staðan er 2:1 fyrir Belgíu. Ísland fékk dauðafæri í kjölfarið af markinu. Andri Már slapp einn á móti markmanni en lét verja frá sér.

31. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Belgíu. Þar kom að því. Fyrsta mark Íslands í keppninni skoraði Emil Alengård. Jón Benedikt Gíslason vann pökkinn á vallarhelmingi Belgíu og þrumaði honum í battann fyrir aftan markið þannig að pökkurinn skilaði sér til baka beint fyrir framan mark Belga og þar var Emil mættur og potaði honum í markið. Vonandi vakna okkar menn við þetta.

29. mín: Staðan er 2:0 fyrir Belgíu. Jafnt í liðum því Robin fékk brottvísun þegar 90 sekúndur voru eftir af refsingu Belgans. „Power play“ íslenska liðsins er bitlaust enn sem komið er. 

26. mín: Staðan er 2:0 fyrir Belgíu. Góð tíðindi því Belgía verður manni færri næstu fjórar mínúturnar. Einn Belginn fékk 2+2 mínútur í refsingu.

25. mín: Staðan er 2:0 fyrir Belgíu. Íslendingar eru mun sókndjarfari fyrstu fimm mínúturnar í öðrum leikhluta og vonandi skilar það marki fljótlega. Liðið þarf að ná úr sér skrekknum og skora fyrsta mark sitt í mótinu. 

22. mín: Staðan er 2:0 fyrir Belgíu. Annar leikhlutinn er hafinn. Íslendingar létu reyna á vörn Belga á mðean þeir voru manni fleiri en tókst ekki að skora. Jón Gísla átti ágæta tilraun en markvörðurinn varði frá honum. 

20. mín: Staðan er 2:0 fyrir Belgíu. Fyrsta leikhluta er lokið. Íslenska liðið er greinilega ryðgað og er það kannski ekki skrítið þar sem það fékk ekki æfingaleiki fyrir mótið eins og síðustu ár. Allir leikmenn Íslands nema varamarkvörðurinn Snorri hafa komið við sögu í fyrsta leikhluta. Belgar hafa refsað Íslendingum fyrir slakan leik og eru 2:0 yfir. Einu góðu tíðindin eru þau að Ísland byrjar annan leikhlutan manni fleiri því Belgía fékk tveggja mínútna brottvísun þegar um fimm sekúndur voru eftir af fyrsta leikhluta. 

18. mín: Staðan er 2:0 fyrir Belgíu. Orri var rekinn út af í tvær mínútur. Ég trúi því ekki að Ísland verði 0:3 undir eftir fyrsta leikhluta.

18. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir Belgíu. Belgar nýttu sér liðsmuninn. Vel gert hjá þeim. Pökkurinn var gefinn fyrir mark Íslands þar sem Jan Raekelboom tók hann viðstöðulaust og Dennis sá væntanlega aldrei pökkinn því skotið var af mjög stuttu færi. 

17. mín: Staðan er 1:0 fyrir Belgíu. Emil var einnig að fjúka út af og Ísland er tveimur leikmönnum færra í 45 sekúndur. Skelfileg staða. 

16. mín: Staðan er 1:0 fyrir Belgíu. Björn Róbert var að fá brottvísun. Íslendingar hafa ekki náð neinum takti enn sem komið er. 

12. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Belgíu. Fremur ódýrt mark frá sjónarhóli Íslendinga. Belgar fengu skyndisókn og sóknarmaður þeirra Ben Vercammen var aleinn fyrir framan mark Íslands og skoraði. Slæm byrjun fyrir íslenska liðið.

8. mín: Staðan er 0:0. Íslenska liðið stóð þetta af sér og aftur er orðið jafnt í liðum. Dennis stóð vaktina vel í markinu. 

6. mín: Staðan er 0:0. Ekkert kom út úr því þegar Belgar voru manni færri en Ólafur Hrafn fékk besta færið. Jónas Breki var að fá brottvísun og nú fá Belgar tækifæri manni fleiri. 

4. mín: Staðan er 0:0. Belgar voru að fá fyrstu brottvísun leiksins. Robin var við það að sleppa í gegn þegar brotið var á honum. Nú sjáum við hvernig „power play“ kemur út hjá íslenska liðinu. 

2. mín: Staðan er 0:0. Leikurinn er hafinn en fer rólega af stað fyrstu tvær mínúturnar. 

0. mín: Fyrirfram er búist við því að Ísland eigi mesta möguleika á móti Belgíu og Serbíu þar sem Ísland vann Serbíu í fyrsta skipti í fyrra. Leikurinn í dag er því afar mikilvægur í baráttunni um að halda sæti sínu í riðlinum. Ástralir sem komu niður í B-riðli 1. deildar eru enn sem komið er svolítið spurningamerki. 

0. mín: Lið Belgíu kom upp úr B-riðli 2. deildar og vann alla fimm leiki sína í fyrra býsna sannfærandi. Ætla má að liðið sé nokkuð svipað því íslenska að styrkleika en þjóðirnar hafa ekki mæst síðan 2006. Síðan þá hefur íslenska liðið tekið stórstígum framförum en Belgar virðast þó einnig vera í framför.  

Emil Alengård skoraði fyrsta mark Íslands í keppninni í Zagreb.
Emil Alengård skoraði fyrsta mark Íslands í keppninni í Zagreb. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert