Bandaríski landsliðsþjálfarinn, David MacIsaac, fékk mikla fagmenn til þess að aðstoða íslenska landsliðið í 2. deild heimsmeistaramótsins í íshokkí í Zagreb í Króatíu.
Aðstoðarþjálfarinn Darren Rumble hefur fengist við þjálfun atvinnumanna í mörg ár og státar af því að hafa unnið sjálfan Stanley-bikarinn á leikmannaferli sínum. Sjúkraþjálfarinn Emanuel Sanfilippo starfaði í fimm ár með Philadelphia Flyers í NHL-deildinni. Morgunblaðið ræddi stuttlega við þessa kappa í Zagreb.
„Dave hringdi í mig áður en landsliðið kom saman í æfingabúðum á Íslandi fyrir mótið og spurði hvort ég vildi aðstoða hann og liðið. Mitt lið hafði nýlega fallið úr keppni í úrslitakeppninni og ég var því laus. Ég hafði hvorki komið til Íslands né til Króatíu og langaði því mikið til þess að koma,“ sagði Rumble spurður um aðdragandann að samstarfinu en Rumble þjálfar nú lið í Seattle í WHL-deildinni.
Sjá samtal við Rumble og Sanfilippo í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.