„Þetta er bara geðveikt, það er eiginlega eina orðið,“ sagði Egill Þormóðsson, leikmaður Esju, í samtali við mbl.is eftir að liðið tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í íshokkí með sigri á SA eftir vítabráðabana í Laugardalnum í kvöld.
„Við erum búnir að bíða svo lengi eftir þessu. Þeir [SA] eru búnir að einoka titilinn síðan 2012 og þetta er bara ótrúlega sætt,“ sagði Egill, sem sjálfur var í stóru hlutverki í leiknum. Hann skoraði úr vítaskoti í þriðja leikhluta sem tryggði framlengingu, 3:3, og skilaði sínu einnig í vítaskotkeppninni í lokin.
„Maður finnur alveg pressuna, sérstaklega þar sem voru bara átta mínútur eftir. En það þarf bara að gera það sem þarf að gera og stíga upp,“ sagði Egill og tók undir að það væri vart hægt að tryggja titilinn á betri hátt en eftir svona leik.
„Nei, eiginlega ekki. Við vorum að elta allan tímann og þetta var ógeðslega erfitt. Þeir áttu geggjaðan leik í kvöld og við vorum á afturfótunum lengst af. En þetta hafðist,“ sagði Egill.
Bróðir Egils, Gauti Þormóðsson, er þjálfari Esju og hann er á leið til Kanada í þjálfun eftir tímabilið.
„Við tölum mikið saman og þó að ég sé nær þjálfaranum en hinir þá þarf hann að passa sig á því að koma eins fram við mig. Hann er mjög „professional“ í þessu og frábært fyrir hann að kveðja með titli,“ sagði Egill Þormóðsson við mbl.is áður en hann hélt áfram að fagna.