„Var meira stressaður í leiknum sjálfum“

Björn Róbert Sigurðarson skorar úr vítaskotinu sem réði úrslitum í …
Björn Róbert Sigurðarson skorar úr vítaskotinu sem réði úrslitum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta gat eiginlega ekki verið meira spennandi,“ sagði Björn Róbert Sigurðarson, fyrirliði Esju, við mbl.is en hann var hetja liðsins sem tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í íshokkí eftir æsilegan sigur á SA eftir vítabráðakeppni í dag. Það var Björn sem tók vítið sem innsiglaði sigurinn.

„Ég vissi allan tímann hvað ég ætlaði að gera, var búinn að lesa markmanninn og sem betur fer heppnaðist þetta allt saman,“ sagði Björn Róbert þegar hann ræddi við blaðamann í miðjum fagnaðarlátunum í Laugardalnum.

Leikurinn sjálfur var vægast sagt æsilegur, staðan var jöfn 3:3 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. Esja vann einvígið 3:0, en hvernig var að stíga upp til þess að taka vítið í bráðabananum?

„Ég var meira stressaður í leiknum sjálfum, en svo þegar kom að vítinu þá pældi maður ekkert í því. Það er mjög sætt að taka þetta svona. Það gerist ekki betra,“ sagði Björn Róbert, en það sá vel á honum þar sem neðri vör hans sprakk í fyrsta leikhluta.

„Já, menn voru að berjast alveg til enda en við vildum þetta bara meira og það sást. Þetta var hnífjafnt en við náðum að pota inn síðustu mörkunum.“

Sem fyrr segir var þetta fyrsti Íslandsmeistaratitillinn í ungri sögu Esju, sem er aðeins að spila sitt þriðja tímabil á Íslandsmótinu.

„Þetta er frábært, miðað við hvað við erum ungt félag. Árangurinn er sláandi finnst mér, við erum með stórgóðan hóp af strákum sem eru allir mjög góðir vinir og það helst allt í hendur,“ sagði Björn Róbert Sigurðarson við mbl.is áður en hann hélt áfram að fagna með liðsfélögum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert