Öruggur sigur SA á Birninum

Hvar er pökkurinn? Sigurður Sigurðsson kom SA yfir í leiknum …
Hvar er pökkurinn? Sigurður Sigurðsson kom SA yfir í leiknum og leitar ásamt þeim Bergi Einarssyni og Úlfari Andréssyni í liði Bjarnarins. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

SA Víkingar sigruðu Björninn örugglega þegar að liðin mættust í Hertz-deild karla í íshokkí í kvöld á Akureyri. Leiknum lauk með 6:0 sigri heimamanna, sem gengu frá Birninum á fyrstu 40 mínútum leiksins með frábærri spilamennsku.

Heimamenn voru komnir í 2:0 eftir aðeins 9 mínútur af fyrsta leikhluta með mörkum frá Sigurði Sigurðssyni og Jordan Steger. Mörkin hefðu svo sannarlega geta orðið fleiri hefði ekki verið fyrir flottan leik Ómars Skúlasonar í marki gestanna frá Reykjavík.

Bæði lið léku með fjóra menn inná þegar að 2. leikhluti hófst. Það virtist henta heimamönnum vel en þeir skoruðu tvö gullfalleg mörk á upphafsmínútum leikhlutans. Annars vegar þegar liðin voru að leika 4 á 4, þá skoraði Bart Moran eftir gott skot frá Jussi Sipponen og þegar að SA hafði fullskipað lið en Björninn ekki kom fjórða markið og það gerði þjálfarinn sjálfur, Jussi Sipponen með dúndurskoti úr sóknarsvæði Víkinga. Þegar leið á leikhlutann urðu yfirburðir heimamanna enn ljósari og endaði það með því að Andri Már Mikaelsson skoraði fimmta mark heimamanna eftir sendingu frá Jóhanni Leifssyni og staðan 5:0 eftir tvær lotur.

Bjarnarmenn komu af miklum krafti inn í loka þriðjunginn en uppskáru ekki erfiði sitt þar sem að Timothy Noting, nýr markvörður SA Víkinga, varði eins og óður væri. Leikurinn fjaraði síðan rólega út þegar ekkert gekk hjá gestunum að skora. Heimamenn ráku síðan síðasta naglann í kistu Bjarnarins þegar fjórar mínútur voru eftir en þá skoraði varnartröllið Orri Blöndal eftir góðan einleik upp völlinn. Lokatölur 6:0 á Akureyri.

Eftir þennan sigur styrkja Akureyringar stöðu sína á toppnum þar sem þeir hafa nú 27 stig, 4 stigum meira en UMFK Esja en Björninn er aðeins að hellast úr lestinni en þeir hafa 16 stig í þriðja sæti.

Mörk/Stoðsendingar SA Víkinga:

Jussi Sipponen 1/2
Bart Moran 1/2
Ingvar Jónsson 0/2
Jordan Stegeer 1/1
Andri Már Mikaelsson 1/1
Sigurður Sveinn Sigurðsson 1/0
Orri Blöndal 1/0
Hilmar Leifsson 0/1

SA 6:0 Björninn opna loka
60. mín. SA Leik lokið 6:0 - Gríðarlega öruggur sigur SA Víkinga á Birninum staðreynd. Eftir fjörugar upphafsmínútur þriðja leikhluta fjaraði leikurinn út hægt og rólega. Viðtöl og fleira innan skamms.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert