Tíu stiga sigur Njarðvíkinga í Keflavík

Hjörtur H. Einarsson og félagar í Njarðvík unnu góðan sigur …
Hjörtur H. Einarsson og félagar í Njarðvík unnu góðan sigur í Keflavík. mbl.is/Golli

Njarðvíkingar unnu sætan útisigur á grönnum sínum, Keflvíkingum, í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Iceland-Expressdeildinni, í kvöld en lokatölur leiksins urðu 83:73.

Keflavík er í fjórða sæti deildarinnar með 24 stig en Njarðvík er í fimmta sætinu með 22 stig og getur enn farið uppfyrir granna sína áður en yfir lýkur. Allt bendir til þess að liðin muni síðan mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Heath Sitton skoraði 19 stig fyrir Njarðvík, Fuad Memcic 16 og Magnús Gunnarsson 16. Hjá Keflavík var Sigurður Þorsteinsson með 24 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson gerði 20 stig.

40. LEIK LOKIÐ. Njarðvíkingar gáfu ekkert eftir í fjórða leikhluta, juku forskotið og voru komnir 13 stigum yfir þegar fjórar mínútur voru eftir. Þeir voru ekki í vandræðum með að landa sigrinum eftir það.

30. Keflvíkingar byrjuðu þriðja leikhluta betur og voru komnir í 39:37 en Njarðvík svaraði því með níu stigum í röð. Staðan að leikhlutanum loknum var 50:58 og Magnús Gunnarsson búinn að vera drjúgur fyrir Njarðvíkinga gegn sínum gömlu félögum og kominn með 16 stig.

20. HÁLFLEIKUR. Lítið var skorað í öðrum leikhluta en þegar flautað var til leikhlés var staðan 32:33, Njarðvík með eins stigs forystu. Heath Sitton gerði 15 stig fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik en Sigurður Þorsteinsson 12 fyrir Keflavík.

10. Keflavík var yfir að loknum fyrsta leikhluta, 22:21.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka