Ekkert lát er á sigurgöngu Dallas Mavericks í bandarísku NBA körfuboltadeildinni en liðið vann meistarana í Miami Heat, 99:93, í riðlakeppninni í kvöld. Josh Howard skoraði 25 stig fyrir Dallas og Jerry Stackhouse skorði 23 stig, þar af 16 í lokafjórðungi leiksins. Dwyane Wade skoraði 31 stig fyrir Miami en hitti ekki úr þriggja stiga skoti á lokasekúndunum.
Dallas hefur unnið sjö síðustu leiki sína og 20 af síðustu 21 leik. Liðið er með langbesta vinningshlutfallið í riðlakeppninni, hefur unnið 34 leiki en tapað 8.
Annað sigursælt lið, Phoenix Suns, vann 13. leik sinn í röð þegar liðið lagði Minnesota Timberwolves, 131:102. Shawn Marion skoraði 17 stig og hirti 20 fráköst í leiknum.
Þá vann San Antonio Spurs sigur á Philadelphia 76ers, 99:85, og Portland Trail Blazers vann Milwaukee Bucks, 99:95.