Einar Árni Jóhannsson sagði upp í gær þjálfarastarfi sínu hjá úrvalsdeildarliði Njarðvíkur. Einar sagði í samtali við mbl.is rétt í þessu að ýmsar ástæður væru fyrir uppsögninni.
„Ég er búinn að þjálfa hjá Njarðvík í 14 ár og undanfarin þrjú ár verið aðalþjálfari meistaraflokksins. Þetta er mitt félag og ég hef átt gott samstarf við þá sem standa að starfinu hjá Njarðvík. Mér fannst þetta vera rétti tíminn til þess að gera breytingar og ég tilkynnti stjórn félagsins um ákvörðun mína síðdegis í gær,“ sagði Einar í morgun.
Undir hans stjórn varð Njarðvík Íslandsmeistari vorið 2006, bikarmeistari árið 2005 og Njarðvík sigraði í fyrirtækjabikarkeppni KKÍ árið 2006. Hann var kjörinn þjálfari tímabilsins 2006-2007 á lokahófi KKÍ á dögunum.
„Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni sem ég mun velta fyrir á næstu vikum. Ég hef áhuga á því að þjálfa áfram en hvar það verður er óljóst.“ Einar sagði að ný stjórn Njarðvíkur hefði lagt hart að sér að halda áfram með liðið og vildi hann þakka stjórnarmönnum félagsins fyrir frábært starf á undanförnum árum.