Dallas Mavericks er úr leik í úrslitakeppni NBA deildarinnar eftir hrikalegt tap gegn Golden State Warriors, 111:86, í sjötta leik liðanna í Oakland í nótt. Stríðsmennirnir af flóasvæðinu svokallaða í norðanhluta Kaliforníu áttu þennan stórsigur sannarlega skilið og sýndu að enn gerast óvænt úrslit í NBA deildinni.
Gunnar Valgeirsson skrifar frá Bandaríkjunum.
Sjötti leikur liðanna var hnífjafn í hálfleik og allt leit út fyrir að Dallas gæti bjargað keppnistímabilinu með yfirveguðum seinni hálfleik, sérstaklega eftir að hnébótarsinameiðsl Baron Davis í öðrum leikhlutanum gerði honum erfitt fyrir að stjórna leik Golden State. Hið undarlega gerðist hinsvegar að Dallas átti sinn versta þriðja leikhluta á keppnistímabilinu á meðan hver þriggja stiga karfan af annarri rataði rétta leið hjá Golden State. Eftir þrjá leikhluta hafði Warriors gert út um leikinn, eftir að liðið náði 26 stiga forystu, 86:63, að honum loknum. Lokaleikhlutinn var síðan eins og slæm hryllingsmynd fyrir Dallas, og stórt tap, 111:86, var staðreynd. Golden State vann leikseríuna 4:2.
Nelson er snillingur
Ýmsir körfuknattleikssnillingar gerðu grín að möguleikum Golden State fyrir upphaf þessarar leikseríu gegn Dallas (t.d. man undirritaður eftir setningu í Morgunblaðinu fyrir skemmstu “Ef annaðhvort Clippers eða Warriors vinna leik í þessari leikseríu verð ég hissa.”), en það kom fljótlega í ljós að Don Nelson, hinn reyndi þjálfari Warriors, býr enn að körfuboltasnilld. Hann lét lið sitt leika án sérstaks miðherja og við þeirri leikaðferð fundu þjálfar og leikmenn Dallas aldrei neitt svar. Þar að auki komst Dirk Nowitzki, stjarna Dallas, aldrei í gang í leikseríunni og það gerði útslagið fyrir Mavericks, en liðið vann langflesta deildarleiki allra liða í deildarkeppninni. Kappinn skoraði aðeins átta stig í leiknum og missti ellefu af þrettán skotum sínum. Nowitzki lék svo illa í leikseríunni að margir blaðamenn eru nú að endurskoða val sitt á kosningunni um leikmann ársins í deildinni. Telja margir að Nowitzki muni vinna þá kosningu, en almennt eru menn nú að gera sér grein fyrir því að Þjóðverjinn virðist týnast þegar mest á reiðir fyrir Dallas, rétt eins og hann gerði í lokaúrslitunum gegn Miami í fyrra.
Davis stórkostlegur
Baron Davis var stórkostlegur í þessari leikseríu fyrir Golden State. Hann meiddist í hnébótasin í fyrri hálfleiknum á fimmtudag, en það gerði honum ókleift að gera atlögu að körfu Mavericks eins og hann hafði gert alla leikseríuna. Davis aðlagaði leik sínum hinsvegar fljótt og skoraði nokkrar mikilvægar körfur fyrir heimaliðið með góðum stökkskotum. Davis skoraði 20 stig, en það var Steven Jackson sem var sigahæstur Gullfylkisins með 33 stig. Jackson kom til Golden State seint í deildarkeppninni eftir flókin leikmannaskipti Warrirors og Indiana Pacers. Hann reyndist liðinu milil lyftistöng og hefur framkvæmdastjóri Warriors, fyrrum leikmaður liðsins Chris Mullin, fengið mikið lof fyrir að hafa fengið þrjá leikmenn seint á leiktímabilinu sem hafa síðan umturnað leik liðsins.
Hungraðir áhorfendur
Ég var staddur á heimaleik Warriors á síðustu viku deildarkeppninnar gegn Phoenix Suns, sem Golden State vanna sannfærandi. Það sem athygli mína vakti þá var hve hungraðir áhangendur liðsins voru að komast í úrslitakeppnina, en Warriors er lið sem sjaldnast hefur átt mikla möguleik á því undanfarin þrettán ár. Liðið hefur ekki unnið sjö leikja leikseríu síðan 1975, en þá vann liðið sinn eina NBA titil. Ray Ridder, blaðafulltrúi Warriors, sagði við mig að venjulega væri ekki jafn mikil stemming í Oracle höllinni og þá. Hlutirnir hafa hinsvegar breyst geysilega fyrir liðið þann mánuð síðan þá og nú mætir Golden State annaðhvort Houston Rockets eða Utah Jazz, en þau lið leika lokaleik sinn í nótt eftir að Jazz vann sjötta leik liðanna í Salt Lake City á fimmtudag, 94:82.
Phoenix Suns mætir San Antoni Spurs á morgun í fyrst leik þeirra í undanúrslitum Vesturdeildar. Annaðhvort þessara liða telst nú vera sigurstranglegasta liðið í úrslitakeppninni eftir hrakfarir Dallas. Phoenix sló út Los Angeles Lakers 4:1, og Spurs gerði hið sama gegn Denver.
Í Austurdeildinni mætir Chicago liði Detroit, en Toronto og New Jersey eru að berjast um að mæta Cleveland í hinni undanúrslitaseríu Austurdeildar.