Steve Nash var efstur í kjöri þeirra sem valdir voru í lið ársins í NBA-deildinni en hann er leikmaður Phoenix Suns. Liðsfélagi hans Amare Stoudemire var valinn í liðið ásamt þeim Dirk Nowitzki frá Dallas, Tim Duncan San Antonio Spurs og Kobe Bryant LA Lakers.
Nash fékk 129 atkvæði í úrvalsliðið en alls greiddu 129 íþróttafréttamenn atkvæði. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2004 sem liðsfélagar eru valdir í úrvalslið NBA-deildarinnar frá því að Bryant og Shaquille O'Neal leikmenn Lakers voru valdir. Duncan hefur verið í þessu úrvalsliði sl. 9 ár. Nash skoraði 18,3 stig að meðaltali í leik í vetur og gaf rúmlega 11 stoðsendingar að auki. Það hefur enginn leikmaður afrekað frá því að Magic Johnson gerði slíkt hið sama veturinn 1990–991. LeBron James leikmaður Cleveland Cavaliers komst ekki í úrvalsliðið en hann var valinn í úrvalslið nr. 2 ásamt þeim Gilbert Arenas frá Washington, Chris Bosh frá Toronto, Tracy McGrady og Yao Ming úr Houston. Zydrunas Ilgauskas liðsfélagi LeBron James hjá Cleveland sagði að valið hefði komið leikmönnum liðsins á óvart. "James er besti leikmaður deildarinnar og það er enginn sem gæti fyllt skarð hans í okkar liði."
Þriðja úrvalsliðið skipa þeir
Dwyane Wade úr Miami, Chauncey Billups frá Detroit, Kevin Garnett úr Minnesota, Carmelo Anthony frá Denver og Dwight Howard úr Orlando.