Cleveland Cavaliers vann New Jersey Nets, 87:85, í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildar bandarísku NBA körfuboltadeildarinnar og þarf nú aðeins einn sigur til viðbótar til að komast í úrslitaviðureignina í fyrsta skipti í sögu liðsins. Phoenix Suns vann San Antonio Spurs, 104:98, í undanúrslitum Vesturdeildar og þar er staðan jöfn: bæði lið hafa unnið tvo leiki.
Robert Horry leikmanni San Antonio Spurs var vísað af leikvelli eftir að hann braut harkalega á Steve Nash undir lok leiksins. Nokkrir leikmenn Suns fóru að því virtist inn á völlinn af varamannabekk liðsins í leyfisleysi og þar á meðal var Amare Stoudemire. Hann gæti átt yfir höfði sér leikbann í fimmta leiknum en Stoudemire sagði að hann hefði aðeins verið á leið að skiptisvæðinu til þess fara inn á völlinn.
Mike D'Antoni þjálfari Suns sagði eftir leikinn að liðið væri komið yfir erfiðasta hjallann. „Við erum að leika gegn frábæru liði en ég hef trú á því að við séum komnir upp brekkuna og það er góður möguleiki á því að við getum unnið tvo leiki til viðbótar,“ sagði D'Antoni.
Margir stuðningsmenn Spurs mættu til leiks með svartan lit undir vinstra auga og studdu þar með við bakið á Argentínumanninum Manu Ginobili sem skartar vænu glóðarauga eftir högg sem hann fékk í öðrum leik liðanna. Stuðningsmenn Spurs voru með þessum hætti að herma eftir stuðningsmönnum Suns sem mættu margir með plástur á nefinu í öðrum leiknum og voru með þeirri aðgerð að lýsa yfir stuðningi við Steve Nash sem fékk stóran skurð á nefið í fyrsta leiknum og þurfti að sauma sex spor til þess að loka sárinu.
Stig Cleveland: LeBron James 30, Larry Hughes 19, Zydrunas Ilgauskas 13, Sasha Pavlovic 9, Drew Gooden 8, Anderson Varejao 6, Eric Snow 2.
Stig New Jersey: Vince Carter 25, Mikki Moore 25, Richard Jefferson 15, Bostjan Nachbar 6, Jason Kidd 5, Marcus Williams 4, Josh Boone 2, Eddie House 2, Antoine Wright 1.
Stig Phoenix: Amare Stoudemire 26, Steve Nash 24, Kurt Thomas 14, Raja Bell 12, Shawn Marion 12, Leandro Barbosa 10, Boris Diaw 4, James Jones 2.
Stig San Antonio: Tony Parker 23, Tim Duncan 21, Michael Finley 17, Brent Barry 12, Manu Ginobili 10, Fabricio Oberto 6, Jacque Vaughn 4, Bruce Bowen 3, Francisco Elson 2.