NBA: Cleveland nálgast úrslitaviðureign Austurdeildar

Robert Horry og Steve Nash skiptast á skoðunum í leiknum …
Robert Horry og Steve Nash skiptast á skoðunum í leiknum í gær með aðstoð dómara. Reuters

Cleveland Cavaliers vann New Jersey Nets, 87:85, í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildar bandarísku NBA körfuboltadeildarinnar og þarf nú aðeins einn sigur til viðbótar til að komast í úrslitaviðureignina í fyrsta skipti í sögu liðsins. Phoenix Suns vann San Antonio Spurs, 104:98, í undanúrslitum Vesturdeildar og þar er staðan jöfn: bæði lið hafa unnið tvo leiki.

Robert Horry leikmanni San Antonio Spurs var vísað af leikvelli eftir að hann braut harkalega á Steve Nash undir lok leiksins. Nokkrir leikmenn Suns fóru að því virtist inn á völlinn af varamannabekk liðsins í leyfisleysi og þar á meðal var Amare Stoudemire. Hann gæti átt yfir höfði sér leikbann í fimmta leiknum en Stoudemire sagði að hann hefði aðeins verið á leið að skiptisvæðinu til þess fara inn á völlinn.

Mike D'Antoni þjálfari Suns sagði eftir leikinn að liðið væri komið yfir erfiðasta hjallann. „Við erum að leika gegn frábæru liði en ég hef trú á því að við séum komnir upp brekkuna og það er góður möguleiki á því að við getum unnið tvo leiki til viðbótar,“ sagði D'Antoni.

Margir stuðningsmenn Spurs mættu til leiks með svartan lit undir vinstra auga og studdu þar með við bakið á Argentínumanninum Manu Ginobili sem skartar vænu glóðarauga eftir högg sem hann fékk í öðrum leik liðanna. Stuðningsmenn Spurs voru með þessum hætti að herma eftir stuðningsmönnum Suns sem mættu margir með plástur á nefinu í öðrum leiknum og voru með þeirri aðgerð að lýsa yfir stuðningi við Steve Nash sem fékk stóran skurð á nefið í fyrsta leiknum og þurfti að sauma sex spor til þess að loka sárinu.

Stig Cleveland: LeBron James 30, Larry Hughes 19, Zydrunas Ilgauskas 13, Sasha Pavlovic 9, Drew Gooden 8, Anderson Varejao 6, Eric Snow 2.

Stig New Jersey: Vince Carter 25, Mikki Moore 25, Richard Jefferson 15, Bostjan Nachbar 6, Jason Kidd 5, Marcus Williams 4, Josh Boone 2, Eddie House 2, Antoine Wright 1.

Stig Phoenix: Amare Stoudemire 26, Steve Nash 24, Kurt Thomas 14, Raja Bell 12, Shawn Marion 12, Leandro Barbosa 10, Boris Diaw 4, James Jones 2.

Stig San Antonio: Tony Parker 23, Tim Duncan 21, Michael Finley 17, Brent Barry 12, Manu Ginobili 10, Fabricio Oberto 6, Jacque Vaughn 4, Bruce Bowen 3, Francisco Elson 2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert