New Jersey Nets vann Cleveland Cavaliers, 83:72, á heimavelli Cleveland í nótt í undanúrslitum Austurdeildar bandarísku NBA körfuboltadeildarinnar og minnkaði muninn í viðureign liðanna í 3:2. Þá vann San Antonio Spurs sigur á Phoenix Suns, 88:85, í Phoenix í undanúrslitum Vesturdeildar og komst yfir, 3:2, í viðureign liðanna. Næsti leikur fer fram í San Antonio.
Það vantaði tvo lykilleikmenn í lið Suns, Amare Stoudemire og Boris Diaw, en þeir fengu leikbann fyrir að fara inn á völlinn í leyfisleysi í fjórða leiknum. Samtals hafa þeir skorað yfir 31 stig í úrslitakeppninni fram til þessa. Robert Horry lék ekki með Spurs í nótt og hann verður ekki með í sjötta leiknum en hann fékk tveggja leikja bann fyrir að ýta Steve Nash út fyrir hliðarlínuna í fjórða leiknum en brotið þótti óíþróttamannslegt.
Manu Ginobili leikmaður Spurs skoraði 15 af alls 26 stigum sínum í fjórða leikhluta og Bruce Bowen skoraði mikilvæga þriggja stiga körfu undir lok leiksins sem kom Spurs í 84:81. „Við vorum ekki með tvo góða leikmenn í okkar liði í þessum leik og það hafði vissulega áhrif. Þeir leikmenn sem fengu tækifæri gerðu sitt besta en það var ekki nóg,“ sagði Steve Nash.
„Ég fann að hugarfarið í herbúðum Suns var með allt öðrum hætti en áður. Þeir börðust mun meira og léku af meiri hörku,“ sagði Ginobili.
Stig San Antonio: Manu Ginobili 26, Tim Duncan 21, Michael Finley 13, Tony Parker 11, Bruce Bowen 9, Fabricio Oberto 6, Jacque Vaughn 2. Stig Phoenix: Shawn Marion 24, Steve Nash 19, Kurt Thomas 15, Raja Bell 10, James Jones 9, Leandro Barbosa 8.
Stig New Jersey: Jason Kidd 20, Richard Jefferson 15, Mikki Moore 14, Bostjan Nachbar 13, Vince Carter 12, Eddie House 3, Josh Boone 2, Marcus Williams 2, Antoine Wright 2.
Stig Cleveland: LeBron James 20, Zydrunas Ilgauskas 16, Daniel Gibson 8, Sasha Pavlovic 8, Larry Hughes 7, Drew Gooden 4, Donyell Marshall 3, Eric Snow 3, Anderson Varejao 3.