San Antonio Spurs vann yfirburðasigur á Utah Jazz, 109:84, í fimmta leik liðanna í úrslitaviðureign Vesturdeildar bandarísku NBA körfuboltadeildarinnar og þar með viðureignina 4:1. Er þetta í þriðja skipti á fimm árum sem liðið hreppir þennan titil.
San Antonio mun nú mæta annaðhvort Detroit Pistons eða Cleveland Cavaliers í úrslitum NBA deildarinnar en í viðureign þeirra liða í úrslitum Austurdeildarinnar er staðan jöfn, hvort lið hefur unnið tvo leiki.
San Antonio komst í 14-0 í upphafi leiksins og eftir það voru úrslitin ráðin. Tim Duncan og Tony Parker skoruðu báðir 21 stig fyrir San Antonio en hvorugur þeirra lék í fjórða leikhluta. Andrei Kirilenko var stigahæstur í Utah með 13 stig.