Íslenska landsliðið í körfuknattleik fagnaði sigri á Smáþjóðaleikunum eftir sögulegan úrslitaleik gegn Kýpur. Undir lok leiksins í stöðunni 78:72 fékk einn leikmaður Kýpur dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Á leið sinni út af vellinum gaf hann íslenskum áhorfendum „fingurinn“ og í kjölfarið fór allt á hvolf í íþróttahöllinni.
Dómarapar leiksins var skipað konu frá Frakklandi og svissneskum karli og leikmaðurinn frá Kýpur réðst á karldómarann og lagði hann í gólfið. Dómararnir fóru síðan inn í búningsherbergi með aðstoð öryggisvarða. Forvarsmenn keppninnar ákváðu eftir stutt fundarhöld að dæma íslenska liðinu sigur, 2:0.
Íslenska landsliðið fær lögreglufylgd út úr keppnishöllinni í Mónakó en íslenski hópurinn fer í kvöld áleiðis til Mílanó á Ítalíu þaðan sem flogið verður til Íslands í nótt.
Brenton Birmingham fékk skurð á augabrún snemma í fyrri hálfleik og þurfti að sauma nokkur spor til þess að loka sárinu. Brenton hafði skorað 13 stig í leiknum þegar hann var flautaður af, líkt og Páll Axel Vilbergsson og Magnús Gunnarsson. Logi Gunnarsson hafði þá skorað 12 stig. Íslenska liðið mátti tapa gegn Kýpur með minna en 14 stiga - en liðin voru jöfn að stigum fyrir úrslitaleikinn en stigahlutfall Íslands var betra.