Ísland sigraði Lúxemborg í B-deild Evrópumóts landsliða í kvöld, 89:73, en leikið var í Lúxemborg. Logi Gunnarsson skoraði 21 stig fyrir Ísland, Fannar Ólafsson skoraði 15 og Páll Axel Vilbergsson var einnig með 15 stig. Ísland mætir Austurríki á miðvikudaginn í lokaleiknum í riðlakeppninni en Ísland hefur sigrað Lúxemborg tvívegis í riðlinum og s.l. miðvikudag lagði Ísland sterkt lið Georgíu, 76:75.
Íslenska liðið byrjaði illa í leiknum í kvöld og var mest 16 stigum undir en taflið snérist við í síðari hálfleik þar sem að íslenska liðið náði mest 19 stiga forskoti.
Finnar eru efstir í riðlinum en liðið hefur unnið alla leiki sína til þessa. Georgía er í öðru sæti, Ísland og Austurríki eru jöfn að stigum í 3.-4. sæti og Lúxemborg hefur tapað öllum leikjum sínum til þessa.
Stig Íslands: Logi Gunnarsson 21, Fannar Ólafsson 15 (9 fráköst), Páll Axel Vilbergsson 15 (8 fráköst), Magnús Gunnarsson 12, Friðrik Stefánsson (7 fráköst), Jakob Sigurðarson 8, Brynjar Björnsson 2, Kristinn Jónasson 2, Helgi Magnússon 3, Sigurður Þorsteinsson 2. Þorleifur Ólafsson, Sveinbjörn Claessen. Brenton Birmingham lék ekki með íslenska liðinu í kvöld vegna anna í vinnu en hann verður með liðinu á miðvikudaginn gegn Austurríki.