Rússar tryggðu sér sigur á Evrópumeistaramótinu í körfuknattleik karla á lokasekúndunum í úrslitaleiknum gegn heimsmeistaraliði Spánverja í kvöld. Evrópumeistaramótið fór fram á Spáni og voru heimamenn með pálmann í höndunum þegar skammt var eftir af leiknum en Rússar skoruðu síðustu körfu leiksins þegar 2 sekúndur voru eftir og fögnuðu naumum sigri, 60:59. Litháen fékk bronsverðlaun á EM með því að leggja Grikki að velli, 78:69.
Það var J.R. Holden sem tryggði Rússum Evrópumeistaratitilinn með skoti tveimur sekúndum fyrir leikslok en það vekur athygli að það er "Bandaríkjamaður" sem tryggði Rússum sigurinn. Holden er fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum en er núna með rússneskt ríkisfang. Pau Gasol tók síðasta skot leiksins fyrir Spánverja en boltinn fór ekki ofaní körfuna. Þetta er fimmti úrslitaleikurinn á EM sem Spánverjar tapa.