Snæfell lagði Íslandsmeistarana

Snæfell hafði betur gegn KR í úrslitaleik Powerade bikarkeppninnar í …
Snæfell hafði betur gegn KR í úrslitaleik Powerade bikarkeppninnar í dag. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Snæfell hrósaði sigri í Powarade bikarnum í körfuknattleik karla þegar liðið hrósaði sigri gegn Íslandsmeisturum KR, 72:65, í úrslitaleik í Laugardalshöllinni í dag. Snæfellingar höfðu fimm stiga forskot í leikhléi, 32:27.

Þetta er í annað sinn sem Snæfell sigrar í þessari keppni en KR hefur aldrei náð að sigra. KR-ingar mættu til leiks með nýjan leikmann frá Litháen, Ernestas Ezerskis, en hann er tvítugur leikstjórnandi og kemur frá stórliðinu Rytas.

Leikurinn var í járnum fram á lokamínúturnar. Helgi Magnússon var heitur fyrir KR og hitti vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Snæfell náði þó alltaf að svara og kom Atli Hreinsson með mikilvægar körfur fyrir þá í fjórða leikhluta.

Undir lok leiks fékk Fannar Ólafsson á sig villu eftir baráttu undir körfu Snæfells. Fannar var ekki sáttur við dóminn og fékk dæmda á sig tæknivillu í kjölfarið. Snæfell fékk því fjögur vítaskot sem þeir nýttu öll og náðu þar með að auka muninn töluvert. Snæfell náði svo að landa sigrinum þrátt fyrir stífa pressuvörn KR-inga á lokasprettinum.

Jón Ólafur Jónsson var stigahæstur hjá Snæfelli. Hann skoraði 23 stig á 27 mínútum. Hlynur Bæringsson, fyrirliði liðsins, skoraði 15 stig og tók 13 fráköst í leiknum og Justin Shouse skoraði 11 stig, sendi 9 stoðsendingar og stal 5 boltum í leiknum.

Hjá KR var Helgi Már Magnússon sterkastur. Hann skoraði 23 stig á 25 mínútum, hitti úr 5 af 8 þriggja stiga skotum sínum og stal 4 boltum í leiknum. Joshua Helm skoraði 17 stig og tók 7 fráköst en hann hitti aðeins úr 4 af 12 vítaskotum sínum í leiknum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert