Hill er spenntur fyrir upphaf tímabilsins

Grant Hill meiddur á bekknum hjá Orlando Magic.
Grant Hill meiddur á bekknum hjá Orlando Magic. AP

Körfuknattleiksmaðurinn Grant Hill er gríðarlega spenntur fyrir næsta keppnistímabil en hann skrifaði undir tveggja ára samning við Phoenix Suns í sumar. Í fyrsta sinn frá árinu 1999 hefur Hill getað æft körfubolta yfir sumartímann í stað þess að vera í endurhæfingu vegna meiðsla á ökkla. Hill hefur glímt við erfið meiðsli á ökkla frá árinu 1999 og á þeim tíma hefur hann farið í sex flóknar aðgerðir á ökklanum og um tíma var óttast að ferli hans væri lokið.

Hill er 35 ára gamall og er hann að hefja sitt 14. tímabil í NBA-deildinni en hann hóf ferilinn með Detroit Pistons. Hann lék 65 leiki á síðustu leiktíð með Orlando Magic og skoraði hann 14,4 stig að meðaltali. Hann var ekki mjög kröfuharður í samningaviðræðum við Suns í sumar þar sem hann fær „aðeins“ 230 millj. kr. í laun á næstu tveimur árum hjá félaginu, en það þykir ekki mikið fyrir leikmann í þessum gæðaflokki.

„Það er góð tilfinning að þurfa ekki að hugsa um eitthvað sem tengist meiðslum. Það eina sem ég hef hugsað um er hvernig ég get hjálpað liðinu og hvaða hlutverk ég á að taka að mér,“sagði Hill í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert