Íslandsmeistarar KR unnu í kvöld öruggan sigur á Snæfelli, 85:73, í Iceland Express deild karla í körfuknattleik en liðin áttust við í Frostaskjólinu. Keflavík hafði betur gegn Þór, Hamar lagði Fjölni og Grindavík sigraði nýliða Stjörnunnar.
Andrew Fogel var stigahæstur í liði KR-inga með 23 stig og næstur kom Helgi Már Magnússon með 15 stig. Hjá Snæfellingum var Sigurður Þorvaldsson atkvæðamestur með 17 stig og Hlynur Bæringsson skoraði 16. KR-ingar hafa 4 stig eftir tvo leiki en Snæfellingar, sem töpuðu í undanúrslitunum í fyrra fyrir KR-ingum, hafa tapað öllum þremur leikjum sínum.
Keflvíkingar héldu sigurgöngu sinni áfram en þeir lögðu Þórsara á heimavelli sínum, 99:85. Keflavík hefur þar með unnið alla þrjá leiki sína en Þór hefur 2 stig. Gunnar Einarsson var stigahæstur í liði Keflavíkur með 21 stig og Bobby Walker kom næstur með 17 stig. Luka Marolt skoraði 31 stig fyrir Þórsara og Cedric Isom skoraði 29.
Hamar hafði betur gegn Fjölni í Hveragerði, 73:62. Raed Mostafa skoraði 19 stig fyrir Hamar og Marvin Valdimarsson 15 en hjá Fjölni var Drago Pavlovic stigahæstur með 32 stig.
Nýliðar Stjörnunnar töpuðu á heimvelli fyrir Grindavík, 86:92. Jonathan Griffinn fór mikinn í liði Grindvíkinga en hann skoraði 26 stig.