Rodman kærður fyrir áreitni

Dennis Rodman.
Dennis Rodman. Reiters

Dennis Rodman, sem á árum áður var einn þekktasti leikmaður NBA-deildarinnar í körfuknattleik, þarf að svara fyrir sakir sem á hann eru bornar af fyrrverandi starfsmanni á Hard Rock hóteli í Las Vegas. Sara Robinson, sem starfaði á bar hótelsins í mars árið 2006, hefur ákært Rodman fyrir kynferðislega áreitni. 

Robinson segir að Rodman hafi nuddað sér upp við líkama hennar og þreifað á sér. Konan hefur einnig lagt fram ákæru vegna samskipta hennar við fyrrum vinnuveitanda hennar. Að hennar mati var allt kapp lagt á að þaga yfir málinu og telur konan að hóteleigandinn hafi ekki viljað aðstoða hana á neinn hátt eftir atvikið.

Rodman er 46 ára gamall og var hann í aðalhlutverki hjá meistaraliði Detroit Pistons og síðar hjá Chicago Bulls. Hann er ýmsu vanur þegar kemur að ákærum vegna kynferðislegs áreitis en árið 1998 kærðu fjórar konur hann fyrir að hafa gripið um brjóst þeirra á Hilton hótelinu í Las Vegas. Árið 2001 komst Rodman að samkomulagi við starfsmann í spilavíti sem kærði hann fyrir vafasama hegðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert