Skallagrímur lagði ÍR að velli, 89:86, í úrvalsdeildinni í körfuknattleik þegar liðin áttust við í Borgarnesi í kvöld.
Borgnesingar styrktu þar með stöðu sína í fimmta sæti deildarinnar og eru komnir með 16 stig eftir 14 leiki. ÍR-ingar sitja hinsvegar áfram í 7. sætinu með 10 stig, jafnmörg og Tindastóll, Þór Akureyri og Stjarnan sem eru í þremur næstu sætum á eftir en eiga nú öll leik til góða.
Skallagrímur var yfir eftir fyrsta leikhluta, 24:17, og í hálfleik, 36:35. Eftir þriðja leikhluta var staðan jöfn,, 61:61, en heimamenn knúðu fram sigurinn í lokin.
Darrell Flake skoraði 23 stig fyrir Skallagrím og tók 14 fráköst og Hafþór Gunnarsson gerði 20 stig. Hjá ÍR var Nate Brown með 27 stig og Hreggviður Magnússon 18.