Shaquille O'Neal mun leika með Phoenix Suns það sem eftir er leiktíðarinnar í NBA-deildinni en Miami Heat sendi hann til Phoenix í skiptum fyrir framherjann Shawn Marion og bakvörðinn Marcus Banks.
O'Neal
hefur fjórum sinnum verið í meistaraliði í NBA-deildinni sem leikmaður LA
Lakers þrisvar og Miami Heat árið 2006. Miðherjinn er um 2.16 m.á hæð og hann var á árum áður ávallt á meðal
stigahæstu leikmanna deildarinnar.
„Shaq“ verður 36 ára í mars en hann hefur leikið í 16 ár í NBA-deildinni. Hann hefur aðeins skorað 14,2 stig að meðaltali í deildinni í vetur sem er lægsta meðalskor hans frá upphafi. Meiðsli hafa sett svip sinn á tímabilið hjá „Shaq“ sem hefur aðeins leikið fjóra leiki frá því í lok síðasta árs.
Shawn Marion hefur leikið stórt hlutverk með Suns á undanförnum árum en hann er 29 ára gamall og hefur hann verið í Phoenix í rúm 8 ár. Hann hefur skorað 16 stig að meðaltali og tekið 10 fráköst í leik í vetur.