Þór fær enskan miðherja

Óðinn Ásgeirsson leikmaður Þórs í baráttu gegn Jeremiah Sola leikmanni …
Óðinn Ásgeirsson leikmaður Þórs í baráttu gegn Jeremiah Sola leikmanni KR. Ómar Óskarsson

Þór frá Akureyri, sem leikur í Iceland Express deild karla í körfuknattleik,  hefur bætti enskum miðherja í leikmannahóp liðsins en hann heitir Robert Reed og er hann 2.10 m á hæð. Reed hefur komið víða við á ferlinum en hann lék síðast með Mazzaron Basket á Spáni.

Á heimasíðu Þórs segir Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs að félagið hafi ekki ætlað að fara þá leið að vera með þrjá erlenda leikmenn í sínum röðum. Reed mun leika sinn fyrsta leik með Þór gegn Stjörnunni á morgun á heimavelli Þórs í Síðuskóla.

Hrafn segir í viðtalinu að ungir íslenskir leikmenn sitji eftir í harðri samkeppni um leiktíma gegn erlendum leikmönnum en flest íslensk lið séu með þrjá og jafnvel fjóra erlenda leikmenn í sínum röðum.

„Það má segja að þetta hafi verið okkur mjög þung skref að fara þessa leið.  Ætlun okkar var að spila þetta tímabil á þessum tveimur mönnum og láta þar við sitja.  Umhverfi okkar í Iceland Express deildinni er því miður þannig að það var eiginlega bara málið að hrökkva eða stökkva þegar líða fór að lokun félagaskiptagluggans.  Að okkar mati vorum við einfaldlega búnir að setja of mikið erfiði í þetta dæmi hjá okkur til að sitja eftir.  Nú er bara að sjá hvort ákvörðunin er sú rétta og ég stend og fell í orðins fyllstu merkingu með henni. Að mínu viti eru þær reglur sem nú eru í gildi að missa marks og íþróttinni ekki til framdráttar.  Maður er að sjá nokkur lið sem maður hefur hingað til talið eiga frábært unglingastarf taka sér þrjá útlendinga og þrjú þeirra liða sem við eigum í hvað mestri samkeppni við hafa þá fjóra.  Maður sér mikið af ungum og efnilegum strákum, sem líða fyrir þetta og sumir standa því miður nánast í sömu sporum og þeir gerðu fyrir ca. tveimur árum,“ segir Hrafn m.a. í viðtal á heimasíðu Þórs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert